Kvenna megin er allra gæfa 19. júní 2007 06:15 Íslenskar konur veltu grettistaki á þeim árum þegar þær voru að ávinna sér þau sjálfsögðu mannréttindi að fá kosningarétt: þær einhentu sér gegn því samfélagslega böli sem áfengisdrykkjan var, hrundu af stað hreyfingu sem olli byltingu í uppbyggingu sjúkrahúsa í landinu, gerbreyttu menntunaraðstöðu kvenna með kvennaskólahreyfingunni sem vann að víðtækum umbótum á hreinlæti og heimilisrekstri í landinu. Heilsugæsla, umönnun barna og aldraðra var þeim hugsjónamál löngu áður en karlmenn tóku við sér og virtu og sinntu þeim þjóðþrifamálum. Árangur borgaralegra hreyfinga kvenna skilaði samfélagi á Íslandi fram á við. Samtakamáttur kvenna gerbreytti þjóðlífinu. Nú á tímum eru konur virkir þátttakendur í öllu atvinnulífi en búa við skarðan hlut í stjórnun: konur forðast þátttöku í sveitarstjórnum, þær sitja of fáar á þingi og þótt margar konur séu áberandi í opinberu lífi eiga þær við ramman reip að draga: mörg teikn eru uppi um að enn sé langt í landi í jafnrétti karla og kvenna. Hlutur þeirra er átakanlega smár, svo smár að væri hlutaskiptum við snúið sættu karlmenn sig aldrei við kvenna hlut. Verkefni blasa við: Ofbeldisandi gagnvart konum fer vaxandi í samfélaginu. Fornfálegar hugmyndir um stöðu kvenna til heimilisstarfa er ríkjandi hjá ungum kynslóðum karla. Eðlileg dreifing heimilisstarfa er enn fjarlægur draumur á mörgum heimilum. Launamunur karla og kvenna sem brýtur í bága við lög og almennan vilja er enn himinhrópandi staðreynd. Djúpstætt vantraust á mætti kvenna er enn ríkjandi hjá fjölda karlmanna sem stæra sig af fordómum sínum og óvild í garð kvenna almennt. Þeir verða tvísaga, tvístígandi þegar krafist er opinberrar afstöðu og fara undan í flæmingi. Enginn hópur er eins misskiptur í samfélaginu og ungar konur með börn. Þær eru dæmdar í láglaunastörf og eru upp á bónbjargir komnar. Sumpart er það vegna almenns gáleysis í samlífi kynjanna þótt ungum mæðrum hafi fækkað mikið frá fyrri áratugum. Á stundum er talað um aðra sýn kvenna á deilur og átök: þingkonur státa sig af því að þær leiti fyrr og frekar sátta en karlar um aðskiljanlega hluti. Ekki síst sökum þess að konur standi hallari fæti en karlar þar eins og víðar. Um allt samfélagið eru því menjar hins forna misréttis í fullu gildi sem er miður. Það er ætlast til stórra breytinga af nýrri ríkisstjórn í jafnréttismálum en þær ná skammt ef almennur hugur og vilji logar ekki um samfélagið allt til að bæta stöðu kvenna. Þær umbætur eru huglægar fyrst og fremst og verða að eiga sér stað í sáttfúsri viðurkenningu á því mikilvæga framlagi sem kvenkynið á í lífi okkar allra – ekki síst körlum til hagsbóta og gæfu. Þá litið er aftur til þess byltingarkennda framlags sem fyrir réttri öld umskóp íslenskt samfélag vaknar sú von að íslenskum kvennahreyfingum vaxi enn ásmegin og við upphaf nýrrar aldar blási þær enn til sóknar og sameinist í hreyfingum – utan flokka – til að umskapa íslenskt samfélag til hins betra – á sinn hátt, með sínum rökum og vissu hvað er öllum, ungum og öldnum, til heilla. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Páll Baldvin Baldvinsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Biðin eftir leigubíl Elín Anna Gísladóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Íslenskar konur veltu grettistaki á þeim árum þegar þær voru að ávinna sér þau sjálfsögðu mannréttindi að fá kosningarétt: þær einhentu sér gegn því samfélagslega böli sem áfengisdrykkjan var, hrundu af stað hreyfingu sem olli byltingu í uppbyggingu sjúkrahúsa í landinu, gerbreyttu menntunaraðstöðu kvenna með kvennaskólahreyfingunni sem vann að víðtækum umbótum á hreinlæti og heimilisrekstri í landinu. Heilsugæsla, umönnun barna og aldraðra var þeim hugsjónamál löngu áður en karlmenn tóku við sér og virtu og sinntu þeim þjóðþrifamálum. Árangur borgaralegra hreyfinga kvenna skilaði samfélagi á Íslandi fram á við. Samtakamáttur kvenna gerbreytti þjóðlífinu. Nú á tímum eru konur virkir þátttakendur í öllu atvinnulífi en búa við skarðan hlut í stjórnun: konur forðast þátttöku í sveitarstjórnum, þær sitja of fáar á þingi og þótt margar konur séu áberandi í opinberu lífi eiga þær við ramman reip að draga: mörg teikn eru uppi um að enn sé langt í landi í jafnrétti karla og kvenna. Hlutur þeirra er átakanlega smár, svo smár að væri hlutaskiptum við snúið sættu karlmenn sig aldrei við kvenna hlut. Verkefni blasa við: Ofbeldisandi gagnvart konum fer vaxandi í samfélaginu. Fornfálegar hugmyndir um stöðu kvenna til heimilisstarfa er ríkjandi hjá ungum kynslóðum karla. Eðlileg dreifing heimilisstarfa er enn fjarlægur draumur á mörgum heimilum. Launamunur karla og kvenna sem brýtur í bága við lög og almennan vilja er enn himinhrópandi staðreynd. Djúpstætt vantraust á mætti kvenna er enn ríkjandi hjá fjölda karlmanna sem stæra sig af fordómum sínum og óvild í garð kvenna almennt. Þeir verða tvísaga, tvístígandi þegar krafist er opinberrar afstöðu og fara undan í flæmingi. Enginn hópur er eins misskiptur í samfélaginu og ungar konur með börn. Þær eru dæmdar í láglaunastörf og eru upp á bónbjargir komnar. Sumpart er það vegna almenns gáleysis í samlífi kynjanna þótt ungum mæðrum hafi fækkað mikið frá fyrri áratugum. Á stundum er talað um aðra sýn kvenna á deilur og átök: þingkonur státa sig af því að þær leiti fyrr og frekar sátta en karlar um aðskiljanlega hluti. Ekki síst sökum þess að konur standi hallari fæti en karlar þar eins og víðar. Um allt samfélagið eru því menjar hins forna misréttis í fullu gildi sem er miður. Það er ætlast til stórra breytinga af nýrri ríkisstjórn í jafnréttismálum en þær ná skammt ef almennur hugur og vilji logar ekki um samfélagið allt til að bæta stöðu kvenna. Þær umbætur eru huglægar fyrst og fremst og verða að eiga sér stað í sáttfúsri viðurkenningu á því mikilvæga framlagi sem kvenkynið á í lífi okkar allra – ekki síst körlum til hagsbóta og gæfu. Þá litið er aftur til þess byltingarkennda framlags sem fyrir réttri öld umskóp íslenskt samfélag vaknar sú von að íslenskum kvennahreyfingum vaxi enn ásmegin og við upphaf nýrrar aldar blási þær enn til sóknar og sameinist í hreyfingum – utan flokka – til að umskapa íslenskt samfélag til hins betra – á sinn hátt, með sínum rökum og vissu hvað er öllum, ungum og öldnum, til heilla.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun