Lífið

Kleif Mount Everest í sautjánda sinn

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Sherpar hafa síðan 1953 sett hvert metið á fætur öðru á Everest.
Sherpar hafa síðan 1953 sett hvert metið á fætur öðru á Everest.
Sherpinn Apa Sherpa braut sitt eigið met á miðvikudag, þegar hann kleif 8850 metra háan tind Everest í sautjánda sinn.

Hin 47 ára gamla fjallageit kleif fjallið í fylgd sex meðlima ,,Ofur Sherpa" hópsins. Hópurinn vinnur að gerð heimildarmyndar um Sherpana, þjóðflokk sem býr við rætur Everest og er þekktur fyrir ótrúlega klifurhæfileika.

Klifurhæfileikarnir eru meðal annars taldir stafa af því að þjóðflokkurinn hafi óvenju mikið lungnarými og spjari sig þannig betur í súrefnissnauðu háfjallaloftinu.

Sir Edmund Hillary og Sherpinn Tenzing Norgay voru fyrstir til að klífa Everest árið 1953, en Sherpar höfðu fram að þeim tíma ekki viljað klífa fjallið sem þeir báru óttablandna virðingu fyrir. Sherpar hafa síðan þá sett hvert metið á fætur öðru í fjallinu. Þannig kleif Pemba Dorjie fjallið á 8 klukkustundum og 10 mínútum og Babu Chiri Sherpa dvaldist þar í rúma 21 klukkustund.

Frá upphafi hafa 2062 manns klifið fjallið 3067 sinnum. 203 hafa látist á fjallinu, en skilyrði til björgunar þar eru svo erfið að flest hafa líkin verið skilin eftir gaddfreðin þar sem þau féllu, oft vel sýnileg frá klifurleiðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.