Lífið

Stelpulegar greiðslur

Magnea Sif Agnarsdóttir, hárgreiðslukona á hársnyrtistofunni Effect, mundar hér hárlakksbrúsann á Sólveigu.
Magnea Sif Agnarsdóttir, hárgreiðslukona á hársnyrtistofunni Effect, mundar hér hárlakksbrúsann á Sólveigu.
„Sem betur fer eru fermingargreiðslur alltaf að verða meira og meira stelpulegar,“ segir Magnea Sif Agnarsdóttir, hágreiðslukona á hársnyrtistofunni Effect á Bergstaðastræti.

„Slöngulokkar eru komnir úr tísku, en í staðinn eru stelpurnar með frjálslega lokka sem eru miskrullaðir og fæstar kjósa að vera með uppsett hár,“ segir hún og bætir því við að einnig þurfi að taka tillit til hárgerðarinnar þegar verið er að móta greiðsluna.

„Sólveig er til dæmis með mjög þykkt hár svo ég hefði hvort sem er ekki getað tekið það mikið upp. Það hefði bara komið út eins og hattur.“

Magnea segir að stutthærðar stelpur séu í svo miklum minnihluta að hún hafi ekki greitt slíkri í mörg ár.

„Þetta er samt að komast í tísku aftur. Ég er byrjuð að taka eftir einni og einni stutthærðri, en fram til þessa hafa það aðallega verið eldri konur sem hafa haldið sig við stutta hárið.“

Lifandi blóm eru alveg komin úr tísku að sögn Magneu, en í staðinn vilja fermingarstelpur litlar skrautspennur í hárið eða lítið áberandi gerviblóm.

„Hárskraut má fá í gríðarlegu úrvali í alls konar verslunum. Til dæmis í Skarthúsinu og fleiri búðum sem selja slíkan varning. Ég er mjög sátt við þá þróun sem er að verða í fermingartískunni núna. Fyrir nokkrum árum voru fermingarstelpur eins og litlar konur, með langar gervineglur, uppsett hár og áberandi förðun, en þetta er komið á allt annað stig í dag. Núna er í tísku hjá stelpum að vera stelpulegar,“ segir Magnea að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.