Viðskipti innlent

Aukinn hagnaður hjá Nýherja

Hagnaður Nýherja nam 305,6 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 76,5 milljóna króna hagnað árið 2005. Hagnaður fyrirtækisins á síðasta fjórðungi liðins árs nam 68 milljónum króna, sem er 42,9 milljónum krónum meira en árið á undan.

Tekjur Nýherja námu rúmum 8,6 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við tæplega 6,3 milljarða krónur árið 2005 og nemur tekjuaukningin 37,4 prósentum á milli ára.

Rekstrarhagnaður, Nýherja, ásamt hagnaði dótturfélaga fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir, 682,5 milljónum króna samanborið við 232,7 milljónir króna árið 2005. EBITDA-hlutfall heildartekna nemur 7,9 prósentum á ári, að því er fram kemur í ársuppgjöri Nýherja.

Launakostnaður hjá Nýherja nam 2,5 milljörðum króna á síðasta ári en það er 54 prósenta aukning á milli ára. Hækkunin er að mestu tilkomin vegna fjölgunar starfsmanna í kjölfar kaupa Nýherja á AppliCon A/S í Danmörku.

Í ársuppgjöri fyrirtækisins kemur meðal annars fram að eftirspurn hefur verið stöðugt vaxandi eftir þjónustu upplýsingatæknifyrirtækja og sé horfurnar góðar á þessu ári. Telur fyrirtækið sig eiga ágæt sóknarfæri jafnt hér á landi sem á erlendum mörkuðum og er reiknað með svipuðum rekstrarárangri á þessu ári og því síðasta.

Uppgjör Nýherja





Fleiri fréttir

Sjá meira


×