Handbolti

Danir ætla sér sigur gegn Rússum

Ulrik Wilbek er mikil tilfinningavera og er vanur að lifa sig einstaklega mikið inn í leikinn.
Ulrik Wilbek er mikil tilfinningavera og er vanur að lifa sig einstaklega mikið inn í leikinn. MYND/Getty

Danir taka á móti Rússum á HM í handbolta í kvöld í leik sem mun koma til með að ráðu miklu um hvort liðanna kemst í 8-liða úrslit keppninnar. Óvæntur sigur Dana gegn Spánverjum hefur komið liðinu í góða stöðu og mun sigur í kvöld líklega tryggja liðinu eitt af fjórum efstu sætunum í milliriðli tvö.

“Það væri mikil synd að tapa fyrir Rússum því þá væri sigurinn á Spánverjum til einskins,” sagði Ulrik Wilbek, þjálfari danska liðsins, við þarlenda fjölmiðla í dag. “Það eru stjarnfræðilegir möguleikar fyrir okkur að komast áfram þó við töpum en það er fáránlegt að hugsa um hvað gerist ef við töpum. Við ætlum okkur einfaldlega að vinna þennan leik og létta af pressunni,” sagði Wilbek.

Bæði Rússar og Danir hafa tvö stig eftir þrjá leiki í milliriðlinum en í síðustu umferðinni mæta Danir Tékkum en Rússar taka á móti Ungverjum. Fari svo að Danir tapi fyrir Rússlandi í dag felast hinir “stjarnfræðilegu möguleikar” í því að þeir vinni Tékka í lokaleiknum en um leið að Spánverjar tapi báðum þeim leikjum sem þeir eiga eftir, gegn Ungverjum í dag og Króötum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×