Handbolti

Guðjón Valur: Við vorum að spara kraftana

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sjö mörk gegn Þjóðverjum í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sjö mörk gegn Þjóðverjum í dag.

Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður íslenska liðsins, viðurkenndi í samtali við fjölmiðla eftir leikinn gegn Þýskalandi á HM í dag að leikmenn liðsins hefðu sparað krafta sína fyrir væntanlega viðureign í 8-liða úrslitum. Leikmenn þýska liðsins segja úrslitin hafa ráðist í fyrri hálfleik.

"Því miður gáfum við okkur ekki alla í leikinn í dag því við vildum spara kraftana. Hins vegar vildum við að sjálfsögðu vinna leikinn. Því miður tókst það ekki," sagði Guðjón Valur við þýska fjölmiðla.

Sebastian Preiss, leikmaður Þjóðverja, sagði að vörn liðsins í dag hefði átt stærstan þátt í sigrinum á Íslendingum. "Við spiluðum góða vörn og fyrir aftan hana stóðu markverðirnir sig vel. Við höfðum náð góðu forskoti í hálfleik og það kom aldrei til greina að missa það niður."

Samherji hans Oliver Roggisch tók í sama streng og sagði að forskotið sem þýska liðið hefði náð í fyrri hálfleik hefði verið of stórt fyrir íslenska liðið að brúa. "Þeir spiluðu stærstan hluta fyrri hálfleiks með lakari leikmenn en þeir sem venjulega eru í byrjunarliðinu, líklega til að spara kraftana fyrir 8-liða úrslitin. Fyrir vikið vorum við talsvert betri og náðum í raun að tryggja okkur sigur í fyrri hálfleik," sagði Roggisch.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×