Körfubolti

KR bar sigurorð af Hamar/Selfoss

Úr leiknum í kvöld. Baráttan var gríðarleg eins og sést á myndinni.
Úr leiknum í kvöld. Baráttan var gríðarleg eins og sést á myndinni. MYND/Valgarður

KR bar sigurorð af Hamar/Selfoss í 21. umferð Iceland Express deildarinnar í körfuknattleik í kvöld með 75 stigum gegn 52 stigum. KR-ingar leiddu allan leikinn með um tveimur til tíu stigum. Leiðir fóru síðan að skiljast í seinni hálfleik en þá fóru KR-ingar að hitta betur og herða vörnina hjá sér. Hamar/Selfoss komst lítt áleiðis og sést það best á því að þeir skoruðu aðeins eina þriggja stiga körfu í öllum leiknum.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR-inga, sagði í spjalli við Vísi eftir leikinn að hann væri ánægður með sigurinn. „Við hittum illa í fyrri hálfleik en varnarleikurinn var mjög góður. Þegar við fórum síðan að hitta betur í seinni hálfleik fóru leiðir að skilja," sagði Benedikt. „Leikurinn var ekki mikið augnakonfekt eins og sést á stigaskorinu. Þetta var varnarsigur fyrst og fremst. Við einbeittum okkur að stöðva skytturnar hjá þeim og það tókst eins og sést á því að þeir settu bara eina þriggja stiga körfu allan leikinn." sagði Benedikt að lokum.

Jeremiah Sola var stigahæstur KR-inga með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×