Körfubolti

Valur Ingimundarson: Við viljum fá pressuna á okkur

Valur Ingimundarson, þjálfari Skallagríms
Valur Ingimundarson, þjálfari Skallagríms

Úrslitakeppnin í Iceland Express deildinni í körfubolta hefst með látum annað kvöld. Þar mætast meðal annars Skallagrímur og Grindavík í fyrstu umferðinni líkt og á síðustu leiktíð. Valur Ingimundarsson, þjálfari Skallagríms, segir allt annað uppi á teningnum hjá liðinu í ár en í fyrra.

"Grindvíkingar hafa verið að stíga vel upp í síðustu deildarleikjum á meðan við höfum verið að slaka aðeins á, en við munum laga það og vera komnir í gírinn þegar úrslitakeppnin hefst," sagði Valur og bætti við að í ár væru áherslurnar aðrar en áður hjá Borgnesingum.

"Dæmið er búið að snúast við hjá okkur. Við erum ekki þetta öskubuskulið sem við vorum í fyrra og þannig viljum við hafa það. Við fögnum því að hafa pressuna á okkur og viljum vera dálítið fullorðnir í þessu. Grindavík og Skallagrímur eru svipuð lið, með svipaða hæð og mannsskap og spila ekkert ósvipað. Þetta er bara spurning um baráttu og karakter og það að vera tilbúinn í þetta. Þegar maður kemur í úrslitakeppnina má maður ekki misstíga sig," sagði Valur og viðurkenndi að líklega þýddi ekki að setja stefnuna á minna en titilinn í vetur eftir að hafa komist í úrslitin í fyrra.

"Við viljum fá pressu á okkur og viljum fá meira en í fyrra. Þá spiluðum við góðan vetur og góða úrslitakeppni, en við gerum auðvitað þá kröfu á okkur að við verðum klárir í þetta verkefni í úrslitakeppninni núna og svo sjáum við bara hvernig fer," sagði Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×