Körfubolti

Haukar og Keflavík unnu

Haukar og Keflavík unnu fyrstu leikina í undanúrslitakeppni um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta. Haukar höfðu undirtökin allan tímann í leiknum gegn ÍS í gærkvöldi. Í hálfleik var staðan 38-29. Ifeoma Okonkwo var stigahæst í Haukaliðinu, skoraði 30 stig auk þess sem hún tók 13 fráköst. Helena Sverrisdóttir skoraði 14 stig og tók 13 fráköst. Signý Hermannsdóttir var stigahæst í liði ÍS, skoraði 16 stig en Casey Rost kom næst með 15.

Haukar sigruðu með 76 stigum gegn 61. Annar leikur liðanna verður í íþróttahúsi Kennaraháskólans á sunnudag.

Eins og reiknað var með var leikur Keflavíkur og Grindavíkur jafn og spennandi. Liðin urðu jöfn að stigum í deildarkeppninni en Keflavík tryggði sér heimaleikjaréttinn á hagstæðari úrslitum í innbyrðisviðureignum.Grindavík hafði forystu nær allan leikinn en í síðasta leikhluta náði Keflavík forystu og sigraði að lokum með þriggja stiga mun, 87-84.

Takeesa Watson átti stórleik fyrir Keflavík, skoraði 33 stig, tók 14 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði 20 stig. Liðin mætast næst í Grindavík á laugardag og miðað við leikinn í gærkvöldi má búast við spennandi einvígi þessara liða. Þrjá sigra þarf til þess að komast í úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×