Bíó og sjónvarp

Óvitar frumsýndir á Akureyri í kvöld

Hið rómaða leikrit Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur verður frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar í kvöld. Sautján börn taka þátt í sýningunni við hlið fullorðinna leikara en Sigurður Sigurjónsson leikstýrir verkinu. Í verkinu er allt á hvolfi því þar leika börn fullorðna og fullorðnir börn.

Þegar er orðið uppselt á 10 sýningar verksins og 8 næstu sýningar langt komnar. Rúmlega 500 börn tóku þátt í áheyrnarprufum fyrir sýninguna í vor en 17 börn hlutu hlutverk og hófu þau æfingar ásamt fullorðnum leikurum sýningarinnar í maí síðastliðnum.

Þess má geta að þegar leikritið var fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1979 tóku nokkur börn þátt í sýningunni sem síðar hafa skipað sér í fremsta hóp íslenskra leikara. Má þar nefna Benedikt Erlingsson, Steinnunni Ólínu Þorsteinsdóttur og Halldóru Geirharðsdóttur. Hver veit nema á meðal leikaranna í verkinu nú leynist stjörnur framtíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.