Köfuknattleikssamband Íslands og Iceland Express skrifuðu í dag undir styrktarsamning til næstu fjögurra ára.
Þetta eru lengstu samningar sem gerðir hafa verið í sögu körfuboltasambandsins. Hann er einnig sá stærsti en samningurinn hleypur á tugum milljóna, eftir því sem Hannes Jónsson, formaður KKÍ, segir.
„Það eru ýmsar nýjungar sem fylgja þessum samningi," sagði Hannes. „Til dæmis að nú munu bæði Íslandsmeistarar Iceland Express-deilda karla og kvenna fá 700 þúsund krónur í verðlaunafé."
Þá verður kynningarstarfið einnig eflt til muna. Auk þess verður framvegis hafður auglýsingaborði á heimasíðu KKÍ þar sem félagsmenn körfuboltaliða geta bókað flug hjá Iceland Express. Þá rennur hluti fargjaldsins til viðkomandi félags.
Einnig er sú nýjung í deildini í vetur að KKÍ mun standa að vali liði umferðarinnar en það verður betur kynnt í næstu viku.
Matthías Imsland, framkvæmdarstjóri Iceland Express, var ánægður með samninginn.
„Körfuboltinn er og hefur verið í gríðarlegri sókn. Það er mikil ánægja innan fyrirtækisins hvernig körfuboltanum hefur vegnað vel. Umfjöllun í fjölmiðlum hefur verið mikil og aðsóknarmet slegin."
Hann segir að hann vonast til að íslenskur körfubolti eflist enn frekar, einnig á erlendum vettvangi.
„Ég vonast til að mynda til að verðlaunaféð verði til þess að íslensk félög taki enn meira þátt í Evrópukeppnunum."
Körfubolti