Íslenski boltinn

Eyjólfur hættur

AFP

Stjórn Knattspyrnusamband Íslands samþykkti á fundi sínum í dag, 27. október, að endurnýja ekki ráðningarsamning við Eyjólf Sverrisson, þjálfara A-landsliðs karla í knattspyrnu sem rennur út þann 31. október næstkomandi.

Eyjólfur mun því ekki stjórna liði Íslands í leik gegn Danmörku þann 21. nóvember næstkomandi og enn hefur ekki verið gefið út hver það verður sem fenginn verður til að stýra liðinu í lokaleik sínum í undankeppni EM.

Árangur landsliðsins hefur verið upp og ofan undir stjórn Eyjólfs en síðasti leikur hans við stjórnvölinn var háðlegt tap liðsins gegn Liechtenstein á útivelli á dögunum.

Í frétt sem birtist hér á Vísi í gær var greint frá því hvernig Eyjólfur fór þess á leit við Eið Smára Guðjohnsen að hann afsalaði sér fyrirliðastöðunni hjá landsliðinu fyrir nokkru - en gekk ekki á eftir því þegar Eiður neitaði að tilkynna það sjálfur.

Þá hefur verið orðrómur uppi um agaleysi í herbúðum íslenska landsliðsins.

Íslenska landsliðið vann aðeins tvo leiki undir stjórn Eyjólfs og komu báðir sigrarnir gegn Norður-Írum í undankeppni EM. Liðið spilaði 14 leiki undir hans stjórn, vann 2, gerði 4 jafntefli og tapaði 8.

Logi Ólafsson, fyrrum landsliðsþjálfari, segir þessi tíðindi ekki koma sér mikið á óvart, en furðar sig á tímasetningunni.

"Þessi ákvörðun KSÍ er að mínu mati skiljanleg, en ég hefði þó haldið að hann fengi tækifæri til að klára þetta mót og stýra liðinu í síðasta leiknum í keppninni. Þó ekki væri nema til að leyfa honum að klára þetta með sóma," sagði Logi, en Eyjólfur verður að sætta sig við það að síðasti leikur hans með landsliðið hafi verið 3-0 niðurlæging í Liechtenstein. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×