Gengi hlutabréfa hækkaði almennt eftir upphaf viðskiptadagsins í Kauphöll Íslands í dag. Bréf Flögu hækkaði um 2,7 prósent en bankar og fjárfestingafélög fylgdu fast á hæla þess félags.
Þá hélt gengi bréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum áfram að hækka og stendur gengið í hæstu hæðum. Einungis gengi bréfa í Eimskipafélaginu hefur lækkað.
Það sem af er dags hefur gengi Úrvalsvísitölunnar hækkað um 1,53 prósent og stendur vísitalan í 7.334 stigum.
Þróuninni er öfugt farið úti í hinum stóra heimi. Nikkei-vísitalan féll um tæp 2,5 prósent við lokun hlutabréfamarkaðar í Japan í dag og hefur lækkun verið á nokkrum af helstu mörkuðum í Evrópu.