Sport

Leikmaður í NFL skotinn á heimili sínu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sean Taylor.
Sean Taylor.

Sean Taylor, leikmaður Washington Redskins í ameríska fótboltanum, er í slæmu ástandi á sjúkrahúsi í Miami eftir að hafa orðið fyrir skoti á heimili sínu. Lögreglan telur að hann hafi orðið fyrir skotinu þegar gerð var ránstilraun á heimili hans.

Taylor, sem er 24 ára, fékk skotið í fótinn og missti mikið af blóði. Læknar óttast að það hafi áhrif á blóðflæðið til heilans. Lögreglumenn voru sendir á heimili Talors rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt mánudags eftir að unnusta hans hringdi í Neyðarlínuna.

Taylor hefur ekki tekið þátt í tveimur síðustu leikjum Redskins vegna hnémeiðsla. Hann hefur oft lent í ýmsum vandræðum, meðal annars fékk hann háa sekt fyrir að hrækja í andlitið á leikmanni Tampa Bay í janúar.

Þá var hann ákærður fyrir ólöglegan vopnaburð fyrir tveimur árum. Hann hefur aldrei viljað ræða við fjölmiðla þar sem hann segist einfaldlega ekki treysta þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×