Körfubolti

ÍR bar sigurorð af Haukum í æsispennandi leik

MYND/Stefán

ÍR bar sigurorð af Haukum í æsispennandi leik í Iceland Express deildinni í körfuknattleik í kvöld, 95 - 97. Marel Guðlaugsson spilaði í liði Hauka og varð þar með leikjahæsti maður deildarinnar. Hann var heiðraður fyrir leikinn. Leikurinn var jafn allt frá fyrstu mínútu en ÍR-ingar voru þó skrefinu á undan.

Eftir því sem leið á leikinn styrktust Haukar og þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum leiddu þeir með fimm stigum. ÍR-ingar tóku þá til sinna ráða og minnkuðu muninn. Þegar innan við ein mínúta var eftir af leiknum jafnaði reynsluboltinn Eiríkur Önundarson leikinn með þremur vítaskotum. Haukar fóru þá í sókn og töpuðu boltanum eftir góða vörn ÍR-inga. Hreggviður Magnússon hljóp þá völlinn endilangan og tróp boltanum í körfuna þegar 1,7 sekúnda var eftir af leiknum og kom ÍR tveimur stigum yfir. Haukar náðu ekki að nýta sér þann tíma sem eftir var og því fór sem fór.

Eiríkur Önundarson, leikmaður ÍR-inga, sagði í samtali við Vísi að leikurinn hefði verið afar jafn og að sigurinn hefði getað fallið báðum megin. „Haukar komu tilbúnir til leiks og börðust eins og ljón allan leikinn. Okkur tókst þó að innbyrða sigurinn í lokin." sagði hann. „Haukar eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og við erum að reyna að tryggja okkur sjöunda sætið í deildinni." bætti hann síðan við. „Hreggviður á líka hrós skilið fyrir sigurkörfuna - ég held ég hafi aldrei séð hann fljúga svona upp völlinn áður - það bókstaflega rauk úr honum!" sagði Eiríkur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×