Fastir pennar

Fleiri höfunda - takk!

Þau segja að Alþingi verði slitið í dag. Það liggja fyrir við þinglok nær sextíu mál óafgreidd, mörg brýn, segja menn. Yfir þingheimi er órói undir rólyndislegu fasi.

Þingmenn eru að spenna sig uppí að mæta umbjóðendum sínum, horfast í augu við liðna langa vetur dáða og drengskaparloforða, hástemmdra lýsinga á stefnumiðum sem þeir hafa margir sveigt frá í endalausum málamiðlunum nefndarstarfanna. Nú verða þeir að gera sig einlæga í framan, massa sig uppí að vera samhljóða í stærri málum, gera sölumennsku stjórnmálamannsins að sjálfsagðri dyggð.

Þinglokin mótast óneitanlega af laglegri leikfléttu Framsóknar. Enginn flokkur hefur á síðari tímum reynst eins úrræðagóður að beita spunameisturum samtímans til að vefa sér ný föt, nýtt yfirbragð og þessi miðjuflokksuppfinning stjórnmálajöfursins frá Hriflu. Upphlaup þeirra síðustu vikunnar um mikilvæga ítrekun í stjórnarskrá lýðveldisins um almannahagsmuni er snjöll brella en háskaleg í flýtinum og langvinnu fyrirhyggjuleysi þeirra í störfum við endurskoðun á stjórnarskránni. Ekki er flas til fagnaðar.

Stjórnarskrármálið er fyrir löngu orðið einhver þreyttasti brandarinn sem stjórnmálaflokkarnir bera ábyrgð á. Reyndar á þann veg að ekkert lýsir getuleysi þeirra fylkinga sem takast á í þingkosningum betur. Kosningar eftir kosningar, kjörtímabil eftir kjörtímabil, hafa menn uppi stór orð um að nú skuli stjórnarskrá lýðveldisins færð til nútímahorfs. Þá skortir menn ekki einurðina. En efndir hafa jafnan orðið litlar - sem engar. Lýðveldið er enn án stjórnarskrár sem tekur af öll tvímæli um jafnan atkvæðarétt þegnanna, trúfrelsi og skilgreiningu á sameigninni. Og margt margt fleira.

Hver segir að lögfræðinga og félagsmálatröllaþingið dugi til að semja nýja stjórnarskrá? Hversvegna eru það fólk best til þess fallið? Nær væri að leita til hinna skapandi orðsin smiða, skálda, heimspekinga til þeirrar vinnu. Karla og kvenna sem sjá í víðsýni hærri tinda en hinu þrönga hagsmunapoti hver heildarsjónarmið og hugsjónir henta menningu okkar og samfélagi best. Við þurfum stjórnarskrá sem er innblásin skáldlegri sýn og skrifuð af hagleik og djúpri tilfinningu þeirra sem langa daga höndla með orðin og merkingarmið þeirra.

Með fulltingi skáldanna gætum við fengið í hendur nýjar stjórnarskrár sem næðu augum almennings, vektu athygli og spurningar og vektu með þjóðinni svör og kröfur um nýmæli og forn sannindi: við mættum njóta þess að Ísak Harðarson og Vigdís Grímsdóttir, Þórarinn Eldjárn og Guðbergur Bergsson, Sigríður Þorgeirsdóttir og Vilhjálmur Árnason, Hallgrímur Helgason og Andri Snær gerðu okkur stjórnarskrár - þær mættu bæði vera í bundnu og lausu máli - ef vill.

Það er brýnt að ný stjórnarskrá verði heimt úr höndum þeirra snata sem brátt munu fara hnusandi um sveitir og stræti. Það eru aðeins hugsuðir skáldskapar og speki sem geta glætt þann samning og fyrirheit þjóðarinnar við sjálfa sig lífi.

Pant fá þau rit í sumargjöf, til afmæla, ferminga og jóla. Sem fyrst, áður enn nýtt þing kemur enn einni nefndinni sinni í hægan hægan hægagang.






×