Viðskipti erlent

Miklar hækkanir í Asíu

Utan við kauphöllina í Sjanghæ í Kína.
Utan við kauphöllina í Sjanghæ í Kína. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa rauk upp á hlutabréfamarkaði í Hong Kong í dag eftir að stjórnvöld í Kína gáfu stofnanafjárfestum græna ljósið á að fjárfestan utan landsteina. Þetta er þó ekki eina ástæðan því fjárfestar eystra urðu bjartsýnir eftir jákvæðar fréttir af bandarísku efnahagslífi en líkur þykja á að bandaríski seðlabankinn ætli að lækka stýrivexti síðar á árinu.

Gengi kínversku Hang Seng vísitölunnar hækkaði um 2,6 prósent og fór í 20.990,62 stig en hafði áður farið yfir 21.000 stiga múrinn. Hástökkvararnir eru meðal annars kínverska álfyrirtækið Aluminium Corp., en gengi bréfa í félaginu hækkaði um 9,5 prósent á meðan gengi bréfa í koparframleiðandanum Jiangxi Copper hækkaði um 11,5 prósent. Gengi bréfa í öðrum fyrirtækjum hækkaði um allt frá 5 til rúmlega 9 prósent.

Hlutabréfavísitölur víða í Asíu hækkuðu á sama tíma, þar á meðal í Japan en Nikkei-vísitalan hækkaði um eitt prósent eftir að líkur þóttu til að japanski seðlabankinn ætli að hækka vexti síðar á þessu ári. Bankinn hækkaði vexti fyrst um 25 punkta síðasta sumar eftir sex ára viðvarandi núllvaxtastefnu og hefur aðeins hækkað vextina einu sinni síðan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×