Ástir Astreu og Celadons Einar Már Jónsson skrifar 16. janúar 2008 06:00 Fyrir nokkru var frumsýnd í Frakklandi nýjasta mynd hins aldna kvikmyndajöfurs Erics Rohmer og nefnist hún „Ástir Astreu og Celadons". Eins og áhugamenn um kvikmyndalist munu kannast við hefur innblástur Rohmers löngum komið úr tveimur vindáttum: annars vegar hefur hann gert fjölmargar myndir sem segja frá tilfinningaflækjum í samtímanum og setja á svið persónur sem ræða þær fram og aftur svo mjög að það nægði til að talsetja samanlagðar allar kvikmyndir þögla tímabilsins, en hins vegar hefur hann gert myndir sem gerast í einhverri fortíð, raunverulegri eða ímyndaðri, og þá gjarnan eftir bókmenntaverkum. Má til dæmis nefna meistaraverkið „Enska konan og hertoginn", sem gerist á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar og ber byltingarmönnnum illa söguna. En þessar myndir eru færri. Hjarðsveinar og -meyjar„Ástir Astreu og Celadons" tilheyra seinni flokknum. Myndin er gerð eftir skáldsögu um hjarðsveina og -meyjar eftir Honoré d'Urfé nokkurn sem kom út í mörgum hlutum á fyrri hluta 17. aldar. Sagan taldi að lokum fimm þúsund blaðsíður en hún varð eigi að síður margföld metsölubók, allt fram á daga Maríu Antoinettu drottningar sem gleypti hana í sig, og skal þetta sagt þeim til umhugsunar sem finnst 350 bls. bók vera of löng. Úr þessu óþrjótandi verki dregur Rohmer nú fram fremur einfaldan söguþráð. Sagan gerist á fimmtu öld eftir Krist í hinni fornu Gallíu eins og höfundur og samtímamenn hans gátu ímyndað sér hana. Sviðið sjálft er fjalla- og skógahéraðið Forez, fyrir vestan borgina Lyon, og eru allir atburðir staðsettir mjög nákvæmlega með tilvísunum í kennileiti og staðanöfn, enda voru á þessum slóðum uppruni og óðal höfundarins sjálfs. Hann gefur sér það nú að þetta hérað hafi engir innrásarmenn lagt undir sig, hvorki Rómverjar, né Búrgundar né heldur Vestgotar, heldur lifi menn þar frjálsu hjarðmannalífi í óspilltri náttúrunni, í graslendi og iðgrænum skógum, leikandi á flautur, sekkjapípur og lútur meðan borðin svigna undan réttunum og spakir drúídar útskýra trúarbrögðin, einhvers konar eingyðis-heiðni. Þarna elskar nú Celadon Astreu og Astrea Celadon, en þar sem foreldrar þeirra beggja eru eitthvað saupsáttir biður hún hann að leika að hann sé ástfanginn í einhverri annarri og kasta þannig ryki í augu þeirra. En leikurinn er fullsannfærandi, hún fyrtist og segir honum að koma aldrei fyrir sín augu framar. Celadon reynir þá að drekkja sér í ánni Lignon en með takmörkuðum árangri og eftir nokkrar leikflækjur kemur drúídi honum endanlega til bjargar. Til að sættast aftur við Astreu sína dulbýr hann sig sem dóttur drúídans, og tekst það með ágætum, enda eru flest þessi ungmenni nokkuð tvíkynjungsleg: hann er í senn Celadon og dóttirin Alexis. Astrea verður fyrir djúpum áhrifum af þessari veru sem minnir hana á eitthvað. Hinn villti skáldskapurMyndrænn stíll Rohmers er í góðu samræmi við þessa sögu. Svo er að sjá að hinn 87 ára gamli meistari sé að gefa nútímanum langt nef með því að blása nýju lífi í þessar bókmenntir sem flestir héldu að væru steindauðar, og það gerir hann með óvæntri íroníu, einkum í seinni hlutanum, og svo ekki síst með frábærum náttúrumyndum sem ganga eins og leiðsöguþráður gegnum verkið. Til að undirstrika háðið byrjar myndin á skrifuðum texta eftir Rohmer sjálfan, þar sem hann tekur fram að hann hefði kosið að taka myndina á þeim stöðum þar sem sagan gerist, en því miður hafi hann orðið að leita annað: „Á Forez-sléttunni hafa nú borgir þanist út, vegir verið breikkaðir, ár þornað upp og barrtré komið í stað laufskóganna. Því þurfti að finna annars staðar í Frakklandi landslag sem hefði varðveitt óskert sinn villta skáldskap." Í viðtali sagði Rohmer að með þessu hefði hann viljað vara menn við ef þeir ætluðu að reyna að finna andrúmsloft myndarinnar á þeim stöðum sem væru nefndir. Það fylgdi líka sögunni, að Lignon væri nú orðin svo vatnslítil - vatnið næði varla upp í ökkla - að engum gæti dottið í hug að drekkja sér þar, hversu örvita sem hann væri af ástarsorg. Svo er að sjá að þetta háð hafi hitt beint í mark. Skömmu eftir að myndin var frumsýnd bárust út þau tíðindi að sveitarstjórnin í Leirárhéraði, sem Forez er nú hluti af, hefði höfðað mál gegn hinum síunga Rohmer fyrir illmælgi og róg. … Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Isavia - þar sem sögur fara á flug Skúli Gunnar Sigfússon Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun Hvernig væri að Isavia setti viðskiptavini sína í forgang? Ó. Ingi Tómasson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Að ná sér Skúli S. Ólafsson Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Um menntun barnanna á Gaza Ingólfur Steinsson Skoðun CP félagið, er það til? Steinunn Þorsteinsdóttir Skoðun
Fyrir nokkru var frumsýnd í Frakklandi nýjasta mynd hins aldna kvikmyndajöfurs Erics Rohmer og nefnist hún „Ástir Astreu og Celadons". Eins og áhugamenn um kvikmyndalist munu kannast við hefur innblástur Rohmers löngum komið úr tveimur vindáttum: annars vegar hefur hann gert fjölmargar myndir sem segja frá tilfinningaflækjum í samtímanum og setja á svið persónur sem ræða þær fram og aftur svo mjög að það nægði til að talsetja samanlagðar allar kvikmyndir þögla tímabilsins, en hins vegar hefur hann gert myndir sem gerast í einhverri fortíð, raunverulegri eða ímyndaðri, og þá gjarnan eftir bókmenntaverkum. Má til dæmis nefna meistaraverkið „Enska konan og hertoginn", sem gerist á tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar og ber byltingarmönnnum illa söguna. En þessar myndir eru færri. Hjarðsveinar og -meyjar„Ástir Astreu og Celadons" tilheyra seinni flokknum. Myndin er gerð eftir skáldsögu um hjarðsveina og -meyjar eftir Honoré d'Urfé nokkurn sem kom út í mörgum hlutum á fyrri hluta 17. aldar. Sagan taldi að lokum fimm þúsund blaðsíður en hún varð eigi að síður margföld metsölubók, allt fram á daga Maríu Antoinettu drottningar sem gleypti hana í sig, og skal þetta sagt þeim til umhugsunar sem finnst 350 bls. bók vera of löng. Úr þessu óþrjótandi verki dregur Rohmer nú fram fremur einfaldan söguþráð. Sagan gerist á fimmtu öld eftir Krist í hinni fornu Gallíu eins og höfundur og samtímamenn hans gátu ímyndað sér hana. Sviðið sjálft er fjalla- og skógahéraðið Forez, fyrir vestan borgina Lyon, og eru allir atburðir staðsettir mjög nákvæmlega með tilvísunum í kennileiti og staðanöfn, enda voru á þessum slóðum uppruni og óðal höfundarins sjálfs. Hann gefur sér það nú að þetta hérað hafi engir innrásarmenn lagt undir sig, hvorki Rómverjar, né Búrgundar né heldur Vestgotar, heldur lifi menn þar frjálsu hjarðmannalífi í óspilltri náttúrunni, í graslendi og iðgrænum skógum, leikandi á flautur, sekkjapípur og lútur meðan borðin svigna undan réttunum og spakir drúídar útskýra trúarbrögðin, einhvers konar eingyðis-heiðni. Þarna elskar nú Celadon Astreu og Astrea Celadon, en þar sem foreldrar þeirra beggja eru eitthvað saupsáttir biður hún hann að leika að hann sé ástfanginn í einhverri annarri og kasta þannig ryki í augu þeirra. En leikurinn er fullsannfærandi, hún fyrtist og segir honum að koma aldrei fyrir sín augu framar. Celadon reynir þá að drekkja sér í ánni Lignon en með takmörkuðum árangri og eftir nokkrar leikflækjur kemur drúídi honum endanlega til bjargar. Til að sættast aftur við Astreu sína dulbýr hann sig sem dóttur drúídans, og tekst það með ágætum, enda eru flest þessi ungmenni nokkuð tvíkynjungsleg: hann er í senn Celadon og dóttirin Alexis. Astrea verður fyrir djúpum áhrifum af þessari veru sem minnir hana á eitthvað. Hinn villti skáldskapurMyndrænn stíll Rohmers er í góðu samræmi við þessa sögu. Svo er að sjá að hinn 87 ára gamli meistari sé að gefa nútímanum langt nef með því að blása nýju lífi í þessar bókmenntir sem flestir héldu að væru steindauðar, og það gerir hann með óvæntri íroníu, einkum í seinni hlutanum, og svo ekki síst með frábærum náttúrumyndum sem ganga eins og leiðsöguþráður gegnum verkið. Til að undirstrika háðið byrjar myndin á skrifuðum texta eftir Rohmer sjálfan, þar sem hann tekur fram að hann hefði kosið að taka myndina á þeim stöðum þar sem sagan gerist, en því miður hafi hann orðið að leita annað: „Á Forez-sléttunni hafa nú borgir þanist út, vegir verið breikkaðir, ár þornað upp og barrtré komið í stað laufskóganna. Því þurfti að finna annars staðar í Frakklandi landslag sem hefði varðveitt óskert sinn villta skáldskap." Í viðtali sagði Rohmer að með þessu hefði hann viljað vara menn við ef þeir ætluðu að reyna að finna andrúmsloft myndarinnar á þeim stöðum sem væru nefndir. Það fylgdi líka sögunni, að Lignon væri nú orðin svo vatnslítil - vatnið næði varla upp í ökkla - að engum gæti dottið í hug að drekkja sér þar, hversu örvita sem hann væri af ástarsorg. Svo er að sjá að þetta háð hafi hitt beint í mark. Skömmu eftir að myndin var frumsýnd bárust út þau tíðindi að sveitarstjórnin í Leirárhéraði, sem Forez er nú hluti af, hefði höfðað mál gegn hinum síunga Rohmer fyrir illmælgi og róg. …
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun