Fastir pennar

Að verða frjáls eins og fiðrildi

Svanborg Sigmarsdóttir skrifar

Söfnunarátak UNIFEM fyrir konur í þremur stríðshrjáðum löndum hófst í gær undir yfirskriftinni Fiðrildavika. Fiðrildið, merki vonar og styrksins í mýktinni, hefur verið táknmynd fyrir umbreytingar í lífi fólks í átt til frelsis.

Í Fiðrildavikunni á að safna peningum til þess að hægt sé að styrkja verkefni í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi í Súdan, Líberíu og Lýðveldinu Kongó. Í þessum löndum, líkt og öðrum löndum þar sem stríð hefur ríkt, hefur kynbundið ofbeldi verið notað sem baráttutæki í átökunum. Konum er kerfisbundið nauðgað, ýmist af einstökum hermönnum eða hópum. Þær eru barnaðar og vísvitandi sýktar af HIV-veirunni til að brjóta niður samfélag óvinarins. Þeim er rænt og þær afhentar hermönnum sem „bónus" fyrir vel unnin störf.

Það er ómögulegt að reyna að setja sig í spor þeirra kvenna sem verða fyrir slíku ofbeldi. Allt of oft hefur það verið gagnrýnt að þegar alþjóðasamfélagið reynir að stilla til friðar á átaka­svæðum, eða í störfum friðargæslu þegar átökum linnir, að konurnar gleymast og hermenn og friðargæsluliðar hafi ekki næga þekkingu til að aðstoða konur í þessari aðstöðu. Þetta eru konur sem ekki hafa nægjanlegt vogarafl í sínu samfélagi eða í alþjóðasamfélaginu. Því er mikilvægt að bregðast vel við söfnun sem þessari.

Í þessum þremur löndum, Súdan, Lýðveldinu Kongó og Líberíu er staða kvenna veik fyrir. Í Súdan er til að mynda félags- og efnahagsstaða kvenna einna verst í allri Austur-Afríku. Rúmlega 80 prósent kvenna í Súdan eru ólæsar. Allra fátækustu íbúar landsins eru konur.

UNIFEM styrkir margvísleg verkefni á ári hverju og mun styrktarféð sem safnast hér á landi renna til slíkra verkefna. Á síðasta ári var til dæmis ákveðið að styrkja verkefni í Lýðveldinu Kongó. Markmið þess verkefnis er að styðja konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi og eru sýktar af HIV-veirunni eða með eyðni. Með verkefninu voru konur meðal annars styrktar í gegn um „smálánabanka" en sjö slíkir voru opnaðir í landsbyggðarhéruðum Kongó. Slíkir bankar lána konum lágar upphæðir til kaupa á húsdýrum eða tækjum til að létta sér vinnuna. Eins og reynslan hefur sýnt á Indlandi er áhættan við þessi lán lítil, því þau eru greidd til baka.

Þá var einnig ákveðið að styrkja verkefni í Líberíu þar sem borgarastyrjöld hafði geisað í fjórtán ár. Komið hafði í ljós hversu algengt kynbundið ofbeldi var í landinu. Til að mynda var um fjórðungur allra tilkynntra mannréttindabrota nauðganir. Verkefnið sem styrkt var á að styðja kvennasamtök til að fylgjast með, skjalfesta og tilkynna um ofbeldi gegn konum. Þá á að þjálfa lögreglu til að fylgja eftir nýjum lögum sem vinna eiga gegn kynbundnu ofbeldi sem og alþjóðlegum sáttmálum sem Líbería hefur staðfest.

UNIFEM á Íslandi biður almenning að hafa fiðrildaáhrif; að hafa í huga kenninguna um að vængjasláttur fiðrilda geti haft gríðarleg áhrif á veður í öðrum heimshluta. Peningunum sem safnast verður svo varið í verkefni, líkt og þau sem hér að ofan eru nefnd, og munu hafa gríðarleg áhrif í þágu kvenna og stúlkna í þessum löndum.






×