Evrópuumræðan Þorsteinn Pálsson skrifar 30. mars 2008 06:00 Ólöf Nordal alþingismaður opnaði greinaflokk um Evrópumálefni hér í Fréttablaðinu í liðinni viku með þörfum ábendingum um aðferðafræði þessarar mikilvægu umræðu. Vilji menn uppbyggilega rökræðu um slík viðfangsefni er mikilvægt að að glöggva sig sem best á því í upphafi hvernig ræða skuli. Segja má að umræður um Evrópumálefnin hefi verið út og suður og reyndar eins og án fyrirheits í allmörg ár. Ólöf Nordal bendir réttilega á að umræða um Ísland og Evrópusambandið þurfi að byrja á réttum enda eigi hún að vera á skynsamlegum nótum. Í því sambandi tekur hún af skarið um að Ísland eigi ekki að sækja um aðild fyrr en nauðsynlegar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni. Þingmaðurinn telur að það sé frekar tímaspursmál en hitt hvenær við stöndum frammi fyrir þessari ákvörðun. Flest bendir til að það sé rétt pólitískt mat. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hjá því verður ekki komist að byrja á byrjuninni. Eins og sakir standa er Evrópusambandsaðild andstæð stjórnarskránni. Þar af leiðir að ljóst má vera að uppbyggileg umræða um framtíðar stöðu Íslands í Evrópu þarf að hefjast með umræðum um stjórnarskrárbreytingar og ákvörðunum þar að lútandi. Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, tók merkilegt frumkvæði í febrúar síðastliðnum með ábendingum um mikilvægi þess að koma þessari umræðu í ákveðinn markvissan og tímasettan feril. Dómsmálaráðherra reifaði nýverið með svipuðum hætti hugmyndir af þessu tagi og kallaði eftir vegvísum í því samhengi. Óraunhæft er að ljúka stjórnarskrárbreytingu fyrr en við lok kjörtímabils með því að hún kallar á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Mikilvægt er að allar leikreglur í þessu efni liggi fyrir áður en þjóðin þarf endanlega að gera upp hug sinn um það mat á íslenskum hagsmunum sem eðlilega hlýtur að liggja til grundvallar ákvörðun af þessu tagi. Ætla verður að ágreiningslaust sé að löggjöf um aðild öðlist ekki gildi nema þjóðin samþykki hana í allsherjaratkvæðagreiðslu. En hinu þarf að svara hvort gera eigi kröfur um aukinn meirihluta og lágmarks stuðning allra atkvæðisbærra manna. Margt mælir með því að fyrirfram sammælist menn um að þetta skref verði því aðeins stigið að rúmur meirihluti þjóðarinnar standi þar ótvírætt að baki. Annað álitaefni snýr að því hvernig taka á ákvörðun um að óska eftir aðild og leita eftir samningum þar um. Á Alþingi að taka þá ákvörðun? Eða á ákvörðun Alþingis að vera háð samþykki þjóðarinnar? Skynsamleg rök eru fyrir því að láta gildi slíkrar ákvörðunar velta á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði nauðsynlegar breytingar gerðar á stjórnarskrá við lok þessa kjörtímabils vaknar spurningin hvenær rétt væri að bera málið undir þjóðina. Eins og mál horfa við í dag ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að slík atkvæðagreiðsla færi fram þegar á haustdögum eftir næstu þingkosningar. Allar tímasetningar varðandi formlegan framgang málsins eru á hinn bóginn háðar því að á þeim tíma sem fram undan er náist jafnvægi í þjóðarbúskapnum og umræða fari fram á breiðum grundvelli um mat á framtíðar hagsmunum Íslands í breyttu alþjóðlegu umhverfi. En kjarni málsins er sá að verði ekki byrjað á réttum enda er líklegast að umræðan fari út um víðan völl sem fyrr. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Fasismi er að trenda – erum við að sofna á verðinum? Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun
Ólöf Nordal alþingismaður opnaði greinaflokk um Evrópumálefni hér í Fréttablaðinu í liðinni viku með þörfum ábendingum um aðferðafræði þessarar mikilvægu umræðu. Vilji menn uppbyggilega rökræðu um slík viðfangsefni er mikilvægt að að glöggva sig sem best á því í upphafi hvernig ræða skuli. Segja má að umræður um Evrópumálefnin hefi verið út og suður og reyndar eins og án fyrirheits í allmörg ár. Ólöf Nordal bendir réttilega á að umræða um Ísland og Evrópusambandið þurfi að byrja á réttum enda eigi hún að vera á skynsamlegum nótum. Í því sambandi tekur hún af skarið um að Ísland eigi ekki að sækja um aðild fyrr en nauðsynlegar breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni. Þingmaðurinn telur að það sé frekar tímaspursmál en hitt hvenær við stöndum frammi fyrir þessari ákvörðun. Flest bendir til að það sé rétt pólitískt mat. En það breytir ekki þeirri staðreynd að hjá því verður ekki komist að byrja á byrjuninni. Eins og sakir standa er Evrópusambandsaðild andstæð stjórnarskránni. Þar af leiðir að ljóst má vera að uppbyggileg umræða um framtíðar stöðu Íslands í Evrópu þarf að hefjast með umræðum um stjórnarskrárbreytingar og ákvörðunum þar að lútandi. Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, tók merkilegt frumkvæði í febrúar síðastliðnum með ábendingum um mikilvægi þess að koma þessari umræðu í ákveðinn markvissan og tímasettan feril. Dómsmálaráðherra reifaði nýverið með svipuðum hætti hugmyndir af þessu tagi og kallaði eftir vegvísum í því samhengi. Óraunhæft er að ljúka stjórnarskrárbreytingu fyrr en við lok kjörtímabils með því að hún kallar á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Mikilvægt er að allar leikreglur í þessu efni liggi fyrir áður en þjóðin þarf endanlega að gera upp hug sinn um það mat á íslenskum hagsmunum sem eðlilega hlýtur að liggja til grundvallar ákvörðun af þessu tagi. Ætla verður að ágreiningslaust sé að löggjöf um aðild öðlist ekki gildi nema þjóðin samþykki hana í allsherjaratkvæðagreiðslu. En hinu þarf að svara hvort gera eigi kröfur um aukinn meirihluta og lágmarks stuðning allra atkvæðisbærra manna. Margt mælir með því að fyrirfram sammælist menn um að þetta skref verði því aðeins stigið að rúmur meirihluti þjóðarinnar standi þar ótvírætt að baki. Annað álitaefni snýr að því hvernig taka á ákvörðun um að óska eftir aðild og leita eftir samningum þar um. Á Alþingi að taka þá ákvörðun? Eða á ákvörðun Alþingis að vera háð samþykki þjóðarinnar? Skynsamleg rök eru fyrir því að láta gildi slíkrar ákvörðunar velta á úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði nauðsynlegar breytingar gerðar á stjórnarskrá við lok þessa kjörtímabils vaknar spurningin hvenær rétt væri að bera málið undir þjóðina. Eins og mál horfa við í dag ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að slík atkvæðagreiðsla færi fram þegar á haustdögum eftir næstu þingkosningar. Allar tímasetningar varðandi formlegan framgang málsins eru á hinn bóginn háðar því að á þeim tíma sem fram undan er náist jafnvægi í þjóðarbúskapnum og umræða fari fram á breiðum grundvelli um mat á framtíðar hagsmunum Íslands í breyttu alþjóðlegu umhverfi. En kjarni málsins er sá að verði ekki byrjað á réttum enda er líklegast að umræðan fari út um víðan völl sem fyrr.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun