Menning

Elín Ósk í Hafnarborg

Elín Ósk.
Elín Ósk.

Á morgun kl. 12.00 verða tíundu tónleikar ársins í hádegistónleikaröð Hafnarborgar, menningar- og listastofnunar Hafnarfjarðar. Hafnarborg hefur frá því síðla sumars 2003 staðið fyrir tónleikum í hádegi einu sinni í mánuði. Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru hugsaðir sem tækifæri fyrir fólk í Hafnarfirði til að njóta góðrar tónlistar í hádegishléi. Tónleikarnir eru í boði Hafnarborgar, enginn aðgangseyrir og öllum opnir á meðan húsrúm leyfir.

Frá upphafi hefur Antonía Hevesi píanóleikari verið listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar og velur hún þá listamenn sem fram koma á tónleikunum. Að þessu sinni er það Elín Ósk Óskarsdóttir óperusöngkona sem er gestur hádegistónleikanna og á efniskránni er jólalagasyrpa, ljóðrænar aríur og stök jólalög. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×