Fastir pennar

Til hvers einkaframkvæmd?

Sverrir Jakobsson skrifar

Um árabil hafa einkaaðilar veitt sjúklingum þjónustu af ýmsum toga, en almannatryggingar greiða kostnaðinn að sínum hluta. Heilsugæslustöðvar á vegum hins opinbera og læknamiðstöðvar á vegum lækna virðast hafa rekist ágætlega saman en lítið hefur verið um rannsóknir á kostnaði þessara tveggja rekstrarforma. Núna stendur til að auka verulega einkaframkvæmdir í heilbrigðiskerfinu og er það gert í nafni hagræðingar og þeirrar kreddu að einkaframkvæmd sé töfralausn til að veita sömu þjónustu með ódýrari hætti.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa átt greiðan aðgang að fjölmiðlum til að útbreiða þetta fagnaðarerindi en varla er hægt að segja að þeir hafi nýtt tækifærið til að tala skýrt. Málflutningur þeirra byggir fremur á kredduhugsun heldur en rannsóknum á reynslu annarra þjóða - enda segir hún aðra sögu. Þegar opnað er fyrir einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er nefnilega erfitt að segja A án þess að segja B líka og jafnvel C og D. Sænskur sérfræðingur í heilbrigðismálum, Göran Dahlgren að nafni, ritaði um þetta bók sem hefur verið gefin út á íslensku (Opinber eða einkarekin heilbrigðisþjónusta? Reykjavík 2005). Þar lýsir hann því hvernig einkarekstri er komið á í heilbrigðiskerfinu í nokkrum markvissum skrefum. Byggir hann þar á reynslu frá Svíþjóð og fleiri löndum.

Fimm skref einkavæðingar

@Megin-Ol Idag 8,3p :Fyrsta skrefið er að stofnuð eru fyrirtæki á markaði sem taka að sér þjónustu sem greidd er af opinberu fé. Litið er á þessa þjónustu sem minni háttar viðbót við hina opinbera heilbrigðisþjónustu sem áfram er ríkjandi. Síðan er reynt að koma á samkeppni í kerfinu, einkum á milli mismunandi þjónustuaðila innan opinbera kerfisins. Í framhaldinu kemst á samkeppni opinberra og einkarekinna aðila á sviði heilbrigðisþjónstunnar. Hagsmunaaðilar á markaði eru ánægðir, enda hin opinbera heilbrigðisþjónusta í þeirra augum fyrst og fremst þröskuldur í vegi fyrir myndun arðbærs markaðar sem væri fjármagnaður af almannafé. Þriðja skrefið einkennist af því markaðsfyrirtæki - sem náð hafa auknum hlut þeirrar heilbrigðisþjónustu sem er fjármögnuð af opinberu fé - halda því fram að opinberir rekstraraðilar í heilbrigðisþjónustu njóti forréttinda á markaði þar sem starfsemin sé bæði fjármögnuð og rekin af sama aðila. Aðeins sé hægt að ná fram raunverulegri samkeppni ef einungis einkafyrirtæki fá að keppa um að reka heilbrigðisþjónustu sem fjármögnuð er af opinberu fé.

Fjórða skrefið er að einkaaðilar sem tekið hafa að sér rekstur heilbrigðisþjónustu fyrir opinbert fé vilja opna dyr fyrir sjúklingum sem greiði sjálfir fyrir þjónustuna. Annars eru þenslumöguleikar starfseminnar afar takmarkaðir. Fimmta skrefið er að auka smátt og smátt hlut einkafjármagnaðrar heilbrigðisþjónustu uns allt heilbrigðiskerfið sem byggt hefur verið upp fyrir opinbert fé er opið sjúklingum með eigin sjúkratryggingar. Stækkunarmöguleikar einkafjármagnaðrar heilbrigðisþjónustu velta nefnilega alfarið á því hversu góða þjónustu er unnt að veita á vegum hins opinbera. Ef biðtímar lengjast eða önnur vandamál koma upp þá er bent á kosti sem bjóðast fyrir einkafjármagn og að veita þeim forgang sem vilja og geta greitt fyrir þjónustuna.

Fjársterkir þjóðfélagshópar fara að líta á keyptar sjúkratryggingar sem betri lausn en sameiginlega þjónustu sem fjármögnuð er með sköttum.

Niðurstaðan: Tvöfalt kerfi

Í kjölfarið eykst þrýstingur á skattalækkanir. Hvers vegna ættu þeir sem kaupa sínar eigin tryggingar að borga tvöfalt? Þá er dregið úr fjárframlögum hins opinbera til heilbrigðisþjónustunnar. Lokaniðurstaðan er sú að heilbrigðisþjónusta hættir að vera sameiginleg öllum heldur verður hún markaður þar sem sumir fá betri kjör en aðrir.

Núverandi ríkisstjórn hefur mikil tækifæri til að keyra í gegn breytingar á heilbrigðisþjónustunni í krafti þingmeirihluta. Hins vegar er tæplega meirihlutavilji fyrir því meðal þjóðarinnar. Í könnun meðal Íslendinga á aldrinum 18-75 ára sem fram fór haustið 2006 (Morgunblaðið 23. mars 2007) taldi mikill meirihluti svarenda að það ætti fyrst og fremst að vera verkefni hins opinbera að reka heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þegar spurt var um fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar vildi yfirgnæfandi meirihluti að hið opinbera legði meira fé til heilbrigðisþjónustunnar, en einungis 13% vildu að sjúklingar legðu meira fé af mörkum. Með þeim skrefum sem ríkisstjórn hyggst stíga er ætlunin að fara aðra braut en þá sem ætla má að njóti yfirburðastuðnings almennings og af þeim ástæðum er umræða ráðamanna afar þokukennd og reynt að segja sem fæst um hvað raunverulega standi til.






×