Körfubolti

Þröstur Leó úr leik fram yfir áramót

Keflvíkingar hafa átt í nokkrum vandræðum með meiðsli það sem af er tímabils
Keflvíkingar hafa átt í nokkrum vandræðum með meiðsli það sem af er tímabils

Þröstur Leó Jóhannsson hjá Keflavík hefur gengist undir aðgerð vegna kviðslits og spilar ekki meira með liði sínu á árinu.

Þröstur hefur ekki leikið með Keflvíkingum síðan í lok október en hefur nú gengist undir aðgerð. Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur, sagði í samtali við Vísi að hann þurfi minnst þrjár vikur til að jafna sig og verði því tæplega meira með liðinu á árinu.

Iceland Express deild karla fer í jólafrí þann 19. desember og hefst aftur þann 8. janúar.

Þröstur var í íslenska landsliðshópnum í sumar og hefur skorað 13 stig og hirt 6 fráköst að meðaltali í fjórum leikjum sínum með Keflavík í vetur.

Reynsluboltinn Gunnar Einarsson var ekki með liði Keflavíkur í naumu tapi liðsins gegn Grindavík í gærkvöld, en hann á við bakmeiðsli að stríða.

Sigurður Ingimundarson sagðist ekki geta sagt til um hve alvarleg meiðsli Gunnars væru, en útilokaði þó ekki að hann yrði með í næsta leik sem er gegn FSu á sunnudaginn.

Gunnar hefur farið mikinn með liði Keflavíkur í vetur og er stigahæsti leikmaður liðsins með 18,4 stig og rúm 5 fráköst í leik.

Auk þessa hafa Keflvíkingar á kafla leikið án Jóns N. Hafsteinssonar sem sneri sig á ökkla um daginn og hefur misst af þremur af sjö leikjum Keflvíkinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×