Lífið

Saga af armbeygjukeppni upp á milljónir

Guðmundur Marteinsson segir enga alvöru hafa verið að baki mögnuðu veðmáli milli hans og Jóns Ásgeirs.
Guðmundur Marteinsson segir enga alvöru hafa verið að baki mögnuðu veðmáli milli hans og Jóns Ásgeirs.
„Já, já, við erum báðir keppnismenn. Höfum oft spilað skvass. En haldið okkur við það,” segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss.

Saga af mögnuðu veðmáli milli þeirra Guðmundar og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, gengur milli manna. Þeir eru sagðir hafa lagt undir milljónir í armbeygjukeppni eða nánar tiltekið:

Ef Jón Ásgeir vinnur á Guðmundur að vinna launalaust í ár hjá Bónus en ef Guðmundur vinnur fær hann forláta Porsche-bifreið fyrir sigurinn.

Fylgir sögunni að Jón Ásgeir sé kominn með sérstakan einkaþjálfara í armbeygjum til að auka möguleika sína. Hins vegar er ljóst að Jón Ásgeir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því Guðmundur er gamall vaxtarræktarkappi, afreks­maður á sínu sviði og í fantaformi. Þar sem er reykur er eldur.

„Já, jahh, þetta var nú sagt í gríni. Ákveðið móment, skemmtilegt móment sem kom upp fyrir ári. En engin alvara á bak við það. Sem sýnir sig í því að enn hefur þessi keppni ekki farið fram,“ segir Guðmundur.

Honum finnst skondið að menn skuli sýna einkahúmor þeirra félaganna áhuga. Og gefur ekki mikið fyrir spurninguna hvort ekki hafi verið óðsmannsæði fyrir Jón Ásgeir að ætla sér í hendurnar á honum.

„Ég get tekið slatta,“ segir Guðmundur hógvær aðspurður um hversu margar armbeygjur hann geti tekið í einum rykk. En bendir á að þeir sem lengra eru komnir taki hundrað plús með léttum leik. Og nokkuð stór hópur sem leikur sér að því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.