Fastir pennar

Sterk ríkisstjórn

Þorsteinn Pálsson skrifar
Á liðnum sex mánuðum hafa setið þrír borgarstjórar í Reykjavík. Sú lausung hefur eðlilga komið mest niður á Sjálfstæðisflokknum enda ber hann sinn hluta ábyrgðarinnar. Skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær er á hinn bóginn vísbending um að á landsvísu hafi þetta verið tímabundin lægð.

Samfylkingin heldur þeiri uppsveiflu sem mældist í sambærilegri könnun fyrir mánuði. Þrátt fyrir efnahagsþrengingar á síðustu vikum sýnist ríkisstjórnin og þeir flokkar sem að henni standa bæta stöðu sína umtalsvert frá síðustu kosningum. Sú niðurstaða er verð skoðunar.

Ekki hefði komið á óvart að erfiðleikarnir sem borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna rataði í hefði haft langvinnari áhrif á flokkinn í heild. Hvers vegna gerist það ekki? Nærtækasta skýringin er sú að forysta ríkisstjórnarinnar hafi við erfiðar aðstæður þar á meðal varðandi lausn kjarasamninga sýnt fumleysi og öryggi. Það er einmitt við aðstæður eins og þessar sem ólíklegast er að menn ávinni sér traust með hávaðastjórnmálum.

Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna kallaði sjálfur yfir sig gagnrýni og efasemdir um trúverðugleika og getur ekki kvartað undan því. En vera má að andstæðingarnir hafi á hinn bóginn ekki kunnað sér hóf og þjappað stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins saman með ofnotkun stóryrða. Það getur skýrt að hluta til að lægð hans er grynnri og tímabundnari en búast hefði mátt við.

Ákvörðun oddvita borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna um að sækjast ekki ákveðið eftir borgarstjórastólnum á síðasta ári kjörtímabilsins er skiljanleg í ljósi atburðanna. Hún viðheldur hins vegar um sumt óheppilegri óvissu. Sennilega væri sterkasti leikur borgarstjórnarflokksins í því fólginn að stöðva frekari hringdans um borgarstjórastólinn á þessu kjörtímabili í þeim tilgangi að bjóða borgarbúum upp á meiri festu. Til lengri tíma litið gæti slík stundarfórn aukið bæði traust og tiltrú.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins benti fyrr í vetur á að innan flokksins hefur verið reynt að grafa undan samstarfi hans við Samfylkinguna. Í því samhengi er athyglisvert að skoðanakönnunin sýnir að nærri 96% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins styður stjórnarsamstarfið. Það bendir til þess að gagnrýnendurnir hafi ekki næma tilfinningu fyrir því hvað fólkið telur landinu fyrir bestu. Til langframa geta stjórnmálaflokkar varla leyft sér að hafa annað viðmið.

Athyglisvert er að Framsóknarflokkurinn nær sér ekki á strik í stjórnarandstöðu. Lægðin sem flokkurinn lenti í við síðustu kosningar heldur einfaldlega áfram að dýpka. Skýringin gæti verið sú að línan að hugsanlegu pólitísku framtíðar hlutverki flokksins í flokkakerfinu fer ekki saman við þá línu sem forystumenn flokksins hugsa eftir. Misvísun af því tagi er ekki vænleg til árangurs.

Forystuflokkur stjórnarandstöðunnar, Vinstrihreyfingin grænt framboð, heldur hins vegar þeirri sterku stöðu sem hann náði í kosningunum. Framtíðar vandi VG er hins vegar í því fólginn að næstu kosningar geta ekki snúist um ríkisstjórnina eða stjórnarandstöðuna. Ætli flokkurinn sér að komast í ríkisstjórn þarf hann því að opna leiðir að öðrum hvorum stjórnarflokkanna. Engin merki eru í þá veru.

Að öllu virtu sýnast báðir stjórnarflokkarnir standa sterkt að vígi þrátt fyrir efnahagslegan mótbyr og erfiðleika Sjálfstæðisflokksins á vettvangi borgarstjórnar. Styrkur ríkisstjórnarinnar er þar af leiðandi ótvíræður.





×