Handbolti

Arnór: Skandall af okkar hálfu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ólafur Stefánsson glímir við vörn Makedóníu.
Ólafur Stefánsson glímir við vörn Makedóníu.

Arnór Atlason var þungur á brún og myrkur í máli eftir leik Íslands og Makedóníu í dag. „Skandall af okkar hálfu. Þetta var okkar eigið klúður. Við getum ekki kennt neinum öðrum um þetta."

„Í stöðunni 22-18 eigum við möguleika á að skora 23ja markið ég veit ekki hvað lengi. Þá förum við með einhver 3 til 4 dauðafæri. Þannig að þetta er bara okkar klúður í báðum leikjum. Fyrri leikurinn var algjör skandall líka. Við áttum aldrei að hleypa þessu í að þurfa að sækja svona mörg mörk á heimavelli. Fyrri leikurinn klúðraði þessu þannig séð fyrir okkur en við eigum alla möguleika í dag samt."

Arnór segir liðið of reynt til að geta talað um að spennan hafi orðið liðinu að falli. „Liðið hefur gengið í gegnum meira en þessa leiki þannig að það er ekki hægt að kenna spennustigi um. Við ætluðum svoleiðis að hefna fyrri síðasta leik. Veit ekki hvort við höfum verið of æstir en tækifærin voru fyrir hendi og þetta liggur hjá okkur sjálfum. Þetta er óafsakanlegt," sagði Arnór

Varnartröllið Vignir Svavarsson var mjög vonsvikinn með úrslitin í leikslok. „Menn eru svekktir. Það er ekki annað hægt. Við vorum skelfilega nálægt því en það var bara ekki nóg. Við vorum allan tímann að reyna að bæta upp fyrir skelfilegan fyrri leik. Það er þar sem við töpum þessu. Við vorum að spila þannig séð fínt í dag stóran hluta af leiknum. Við stóðum vörnina ágætlega og sóknin var ágæt að mestu leyti."

Hvíldi markamunurinn of þungt á mönnum? „Ég held ekki. Við ræddum um að taka þetta eitt mark í einu og vera ekki að hugsa um átta mörkin og gera hvað við getum. Ég hugsa að það hafi nú ekki truflað menn. Það er örugglega misjafnt milli manna hvernig það gengur. Óneitanlega getur maður ekki annað en litið á töfluna til að athuga hvað er mikið eftir," sagði Vignir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×