Söngdívan Beyonce gisti, ásamt kærasta sínum Jay-Z og fylgdarliði, á Hótel Keflavík í nótt, eftir að hafa millilent á Keflavíkurflugvelli á leið sinni vestur um haf.
Poppstjarnan lætur sér ekki duga neitt slor og var öll fjórða hæð hótelsins bókuð undir hópinn.
Víkurfréttir hafa það eftir Steinþóri Jónssyni, hótelstjóra, að söngkonan hafi komið óvænt með stuttum fyrirvara og að beðið hafi verið um fimm svítur undir hana og fylgdalið. Svíturnar eru á fjórðu hæð og vildi svo vel til að hún var öll laus um nóttina.
Steinþór segir söngkonuna hafa verið afar geðþekka og elskulega, en hann færði henni listaverk eftir Guðlaugu Helgu Jónsdóttur, systur sína, að gjöf til minningar um landið.
Beyonce leigði hæð á Hótel Keflavík
