Viðskipti erlent

Hlutabréf féllu í Evrópu

Miðlarar að störfum í kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi.
Miðlarar að störfum í kauphöllinni í Frankfurt í Þýskalandi. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa féll almennt á evrópskum mörkuðum á þessum fyrsta viðskiptadegi fjórðungsins sem jafnframt markar seinni hluta ársins. Lækkun er sömuleiðis á bandarískum hlutabréfamörkuðum.

Fallið skýrist sem fyrr af áhyggjum fjárfesta um verðbólguhorfur, háu olíuverði, gengislækkun bandaríkjadals gagnvart öðrum gjaldmiðlum og ótta við að fjármálafyrirtæki víða um heim muni enn neyðast til að afskrifa háar upphæðir úr bókum sínum vegna lélegra fasteignalána í vanskilum.

Mest lækkaði gengi hlutabréfa í bönkum, fjármálafyrirtækjum og flugfélögum sem eiga mikið undir lágu olíuverði.

FTSE-vístialan féll um 2,6 prósent, Dax-vísitalan í Þýskalandi lækkaði um 1,6 prósent og Cac-40 vísitalan í Frakklandi féll um 2,11 prósent.

Þá lækkaði samnorræna hlutabréfavísitalan OMX-40 um 1,61 prósent. OMX-25 hlutabréfavísitalan í kauphöllinni í Helsinki í Finnlandi lækkaði mest norrænna vísitalna, eða um 2,66 prósent. Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands lækkaði um 1,91 prósent á sama tíma.

Það sem af er degi hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkað um 0,71 prósent og Nasdaq-vísitalan um 0,94 prósent.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×