Lífið

Þorrablót Stjörnunnar: Hljómsveitin veðurteppt í Köben

Hanna Guðlaugsdóttir hjá Bláa Lóninu og Gunnhildur Harðardóttir hjá Skiptum eru í rífandi stuði á Þorrablóti Stjörnunnar.
Hanna Guðlaugsdóttir hjá Bláa Lóninu og Gunnhildur Harðardóttir hjá Skiptum eru í rífandi stuði á Þorrablóti Stjörnunnar.
Nú stendur yfir Þorrablót Stjörnunnar í íþróttamiðstöðinni Ásgarði í Garðabæ. Átta hundruð manns eru þar mættir í mat en engin hljómsveit hefur látið sjá sig.

Þorrablót Stjörnumanna hafa yfirleitt vakið mikla lukku og átti engin undantekning að vera frá því í kvöld. Hljómsveit kvöldsins var auglýst en það var hið víðfræga Buff. Hljómsveitin er hinsvegar veðurteppt í Kaupmannahöfn og því erfitt að telja í. Þar hafa þeir verið í hljóðveri en flugi þeirra til Íslands var aflýst.

Gestir Þorrablótsins voru vissulega harmi slegnir en Stjörnumenn gáfust ekki upp. Hringt var í sjálfan Matta í Pöpunum og Einar Ágúst sem eitt sinn söng með Skítamóral.

Strákarnir voru ekki lengi að hóa saman félögum og munu telja í á Þorrablótinu innan skamms.

„Hluti af Pöpunum koma í staðinn og má segja að verið sé að endurvekja þá hljómsveit. Þið þurfið ekki að hafa neinar áhyggjur það kemur alveg jafn góð hljómsveit í staðinn," sagði Lúðvík Einarsson sem er í þorrablótsnefnd Stjörnunnar við útsendara Vísis sem er á staðnum.

Í fyrra seldist upp á fögnuðinn á tveimur dögum en það tók ekki nema fjóra klukkutíma í ár. Búist er við tvö hundruð manns á ballið sem hefst að loknum matnum sem er á vegum Múlakaffis.

Inga Lind Karlsdóttir hélt ræðu í Þorrablótinu þar sem hún talaði um minni karla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.