Sindri Þór Jakobsson, sundkappi úr ÍRB, vann til silfurverðlauna í gær á Norðurlandameistaramóti unglinga sem fór fram í Södertalje í Svíþjóð um helgina.
Sindri vann silfur í 100 metra flugsundi er hann synti á 56,34 sekúndum en þetta voru einu verðlaun Íslendinga á mótinu.
Í dag gátu svo hvorki Sindri né Hrafn Traustason keppt vegna veikinda. Bryndís Rún Hanssen náði reyndar þriðja sæti í 50 metra flugsundi en var dæmd úr keppni vegna hreyfingar á palli.
Danir báru sigur úr býtum í liðakeppninni en Ísland varð í sjötta sæti.