Tónlist

Rúnar Júl staldrar við

Lítur yfir farinn veg Söngvar um lífið er glæsileg þriggja diska útgáfa með Rúnari Júlíussyni.
Lítur yfir farinn veg Söngvar um lífið er glæsileg þriggja diska útgáfa með Rúnari Júlíussyni. mynd/Þorfinnur sigurgeirsson

Rúnar Júlíusson gerir upp feril sinn á þrefaldri plötu. Rúnar er enn að þrátt fyrir 45 ár í bransanum. Hann segist markvisst vinna að því að fresta hrörnuninni, eins og hann orðar það.

„Ég hef alltaf verið með nýja plötu á hverju ári, en nú staldra ég við og lít yfir farinn veg. Svo hefst leikurinn á ný eftir áramót," segir Rúnar Júlíusson, Hr. Rokk, en ferill hans er rakinn á þrefaldri plötu, Söngvar um lífið, sem er nýkomin út. „Fyrstu lögin á disknum eru frá 1966. Þá vorum við í útrás og náðum samningum við plötufyrirtæki Bítlanna, Parlophone, og Columbia í Bandaríkjunum, sem var og er ein stærsta útgáfa í heimi. Það var ansi mikil bjartsýni í loftinu á þessum tíma og sú bjartsýni hefur svo sem ekkert dofnað, að minnsta kosti ekki hvað mig varðar; draumurinn er enn þá til staðar."

Rúnar kom í fyrsta skipti fram með Hljómum 5. október 1963 í Krossinum, þá 18 ára gamall. „Það var spilað streit í fimm tíma, einhver 100-200 lög. Ég var í feimniskasti og nýr á bassanum. Maður hafði ekki fullt sjálfstraust, og maður er svo sem enn þá að vinna í því. Ég hélt upp á 45 ár í bransanum nú í október og spilaði tvö gigg sama daginn, á hippahátíð í Vestmannaeyjum og með Karlakór Keflavíkur í Keflavík."

Rúnar hefur ekki tölu á skiptunum sem hann hefur spilað. „Nei, ég hef enga hugmynd. Sum árin hafa þetta kannski verið 250-300 gigg á ári. Ég hef dregið aðeins úr þessu í seinni tíð. Maður hefur ekki sömu orkuna. Ég get ekki gert það sem ég gat áður og þá geri ég það bara öðruvísi. Ég reyni samt að fresta hrörnuninni eins og ég get. Fer í morgungöngu í hvaða veðri sem er kl. 7 og lyfti síðan í Lífsstíl."

Rúnar vonar það besta og er bjartsýnn að vanda. „Ég hef alltaf verið eigin herra og sé því ekki fram á atvinnuleysi. Ef maður er einhvers virði hefur maður alltaf eitthvað að gera. Maður vonar bara að það bresti ekki á með landsflótta því þá verður ekkert sérlega gaman fyrir þá sem eftir húka. Þjóðlífið þrífst á öðru fólki."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×