„Ég er að undirbúa mig fyrir landsmótið. Síðan er ég að vinna við vefinn Hestafréttir.is," svarar Fjölnir Þorgeirsson þegar Vísir spyr hann frétta.
„Við verðum langöflugastir með fréttir frá mótinu sem byrjar á mánudaginn. Þá tökum við upp videoviðtöl við keppnisliðin, áhorfendur og allt sem er að gerast á svæðinu," segir Fjölnir en hann mun sjálfur keppa í 150 metra skeiði á hestinum Lukkublésa.

Lætur gott af sér leiða
„Ég hef átt Lukkublésa í sex ár. Hann er einn af þeim sem ég mun aldrei selja. Hann er kappreiðahestur og ég var með hann á barnadeild á Landspítalanum hjá langveikum börnum fyrir viku sem var ótrúlega gaman fyrir börnin og fjölskyldur þeirra."
„Ég teymdi börnin á honum en það gerir mikið fyrir börn og fullorðna bara að fara hestbak, það liðkar á öllum liðum. Þetta er líkamsrækt út af fyrir sig."
Hvernig kom það til að að þú og Lukkublési heimsóttuð langveik börn?
"Ég er í nuddi hjá Hörpu Stefánsdóttur, sem starfar með börnunum og hún minntist á að gaman væri að bjóða börnunum á bak og mér fannst frábært að geta látið gott af mér leiða og við fórum með tvo hesta í bæinn í heimsókn til barnanna sem var liður í undirbúningnum fyrir landsmótið."

Berst fyrir syni sínum
„Nú ætla ég að klára landsmótið og fara í góða hestaferð eftir það og svo fer ég að hitta strákinn minn. Ég fæ hann til mín í sumarfrí. Væntanlega næ ég í hann út (Svíðþjóð) en ég stend í forræðisdeilu og er tilbúinn að skrifa undir sameiginlegt forræði. Það er barninu fyrir bestu," segir Fjölnir.
„Það er fáránlegt að láta barnið lenda í miðjunni þegar fólk skilur. Ef móðir hans deyr þá er kærastinn hennar kominn með jafnmikinn rétt á að hafa barnið eins og ég. Það er prinsippmál hjá mér að klára þetta mál. Ég hef oft tekið að mér að ná svona málum í gegn," segir Fjölnir sem er 37 ára í dag en sonur hans verður 3 ára í nóvember.
Hestafréttir.is