Viðskipti innlent

Bakkavör tapaði 3,8 milljörðum á síðasta fjórðungi

Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar.
Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur Bakkavarar. Mynd/GVA
Bakkavör tapaði 19,5 milljónum punda, jafnvirði tæpra 3,8 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 11,3 milljóna punda hagnað á sama tíma í fyrra. Þetta er 273 prósenta samdráttur á milli ára. Rekstrarhagnaður Bakkavarar nam 29,4 milljónum punda, jafnvirði 5,4 milljarða íslenskra, á fjórðungnum. Það er 26 prósenta lækkun frá sama tíma í fyrra. Sé litið til fyrstu níu mánaða ársins nam rekstrarhagnaðurinn 16,1 milljón punda sem er næstum fjórðungslækkun á milli ára. Velta nam 402,8 milljónum punda á síðasta fjórðungi, sem er sjö prósenta aukning á milli ára. Veltan jókst um tíu prósent á fyrstu níu mánuðum ársins. Bakkavör lokaði skiptasamningi sínum í írska samlokuframleiðandanum Greencore Group í október þar sem fjármögnun samnings vegna 10,9 prósenta hlutar í fyrirtækinu var dregin til baka. Tap fyrirtækisins af samningnum nam 58,5 milljónum punda, jafnvirði 10,7 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Fyrirtækið boðar hagræðingu í framleiðslu félagsins á tilbúnum réttum á yfirstandandi ársfjórðungi. Haft er eftir Ágúst Guðmundssyni, forstjóra, í tilkynningu að félaginu hafi orðið ágengt í mjög krefjandi rekstrarumhverfi en helstu áherslur sé að lágmarka áhrif verðhækkana á hráefni, ná fram meiri hagkvæmni í rekstri, auka markaðshlutdeild og sjóðstreymi félagsins enn frekar. Uppgjör Bakkavarar





Fleiri fréttir

Sjá meira


×