Íslenska landsliðið í blaki gerði um helgina góða ferð til Möltu þar sem liðið tryggði sér þátttökurétt í úrslitakeppni Evrópumóts smáþjóða í blaki.
Ísland byrjaði forkeppnina á því að leggja heimamenn Möltu, 3-1, á föstudaginn. Á laugardaginn fór svo fram maraþonviðureign gegn Skotum sem Ísland vann að lokum, 3-2.
Ísland vann fyrstu lotuna, 25-20, en tapaði næstu tveimur, 27-25 og 25-23. Ísland jafnaði þá metin, 25-22, og vann oddalotuna með fimmtán stigum gegn níu.
Í gær tapaði svo Ísland fyrir sterku liði Kýpur, 3-0, en báðar þessar þjóðir komust áfram í úrslitakeppnina sem fer fram í Lúxemborg á næsta ári.
