Tónlist

Nóg að gera hjá Bang Gang

Barði á fleygiferð í sumar
Bang Gang spilar á laugardaginn á LungA.
Barði á fleygiferð í sumar Bang Gang spilar á laugardaginn á LungA.

Hljómsveitin Bang Gang verður mikið á ferð og flugi næstu daga. Í gær var hún stödd í Frakklandi til að spila á rokktónlistarhátíðinni Plage de Rock sem haldin er rétt fyrir utan St. Tropez. Bang Gang heldur svo til Parísar í dag þar sem hljómsveitin verður með útgáfutónleika og að þeim loknum er ferðinni heitið alla leið austur á land þar sem hljómsveitin spilar á LungA á Seyðisfirði.

Tónleikarnir á Seyðisfirði verða jafnframt þeir fyrstu sem hljómsveitin heldur hér á landi í rúm tvö ár. „Bang Gang kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir stuttu en þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem hljómsveitin kemur fram ein og óstudd. Það er gaman að þessir fyrstu tónleikar verði á Seyðisfirði þar sem ég er hálfur Seyðfirðingur og löngu orðið tímabært að ég haldi tónleika fyrir austan,“ segir Barði Jóhannsson tónlistarmaður. Barði mun ekki sitja auðum höndum í sumar því eftir tónleikana á Seyðis­firði mun hann taka að sér að semja tónlistina fyrir nýjustu kvikmynd Óskars Jónassonar, Reykjavík/Rotterdam og því næst heldur hann út á ný í tónleikaferðalag um Evrópu.

„Ég er með bókara úti sem sér um að bóka mig á tónleika. Ég mun spila á milli tuttugu til þrjátíu tónleikum í september og október, þannig að þetta er nokkuð strangt prógram sem er framundan,“ segir Barði áður en hann rýkur í hljóðprufu. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×