Blaðamaðurinn Einar Már Jónsson skrifar 20. ágúst 2008 06:00 Fyrir skömmu var kvikmyndagerðarmaður einn að gramsa í gömlum blöðum í búð fornbókasala í bænum Charleville í Ardennafjöllum nyrst í Frakklandi, skammt frá landamærum Belgíu, og dró þá fram slitið eintak af dagblaði sem var dagsett 25. nóvember 1870. Hafði fornbókasalinn fengið það ásamt öðrum gömlum pappírum hjá konu einni sem var komin með þetta allt saman upp í bíl og á leiðinni með það á haugana, en síðan hafði það legið hjá honum óhreyft í tvö ár. Þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn var að kynna sér þá atburði í fransk-prússneska stríðinu 1870 sem orðið höfðu í Ardennafjöllum vísaði hann honum á bunkann. Þar var m.a. að finna þrjú tölublöð af blaðinu „Le Progres des Ardennes", sem var mjög fágætt, þar sem það hafði verið skammlíft og mjög svo staðbundið, og ekki voru nema slitur til af í bókasöfnum, og setti fornbókasalinn upp þrjátíu evrur fyrir hvert þeirra. Hjarta kvikmyndatökumannsins tók stóran kipp, í þessu tölublaði blasti nú við honum stutt grein sem nefndist „Draumur Bismarcks" og var merkt „Jean Baudry." Það hafði löngu verið vitað undir þessu dulnefni hafði enginn annar skrifað en Arthur Rimbaud - enda er „Baudry" að nokkru leyti „Rimbaud" öfugt - en hingað til hafði ekkert af þessum skrifum fundist, þau virtust glötuð með öllu. Því var ekki ljóst hvað hæft væri í þeirri tilgátu að á þessu skeiði ævinnar hefði skáldið verið að velta því fyrir sér að snúa sér í alvöru að blaðamennskunni. Reyndar var til bréf frá ritstjóra blaðsins til þessa dularfulla „Baudrys" þar sem hann bað hann um að hætta að senda sér ljóð, sem yrðu ekki birt, heldur skrifa í staðinn „greinar um málefni líðandi stundar sem hægt væri að nota strax." Greinarfundurinn sýnir að þessi orð féllu ekki í ófrjóan jarðveg, Rimbaud hafði fullan hug á að reyna fyrir sér á þessu sviði. Reyndar starfaði hann smátíma við þetta sama blað í apríl 1871, en af því sem hann kann þá að hafa skrifað hefur ekkert fundist. Á þeim tíma þegar Arthur Rimbaud skrifaði „Draum Bismarcks" var hann sextán ára gamall, menntaskólanemi í Charleville, og nýbúinn að strjúka að heiman í annað sinn, yfir til Charleroi í Belgíu. Þetta flakk hans, þar sem hann hafði getað skoðað heiminn og fylgst með framvindu í fransk-prússneska stríðinu frá ýmsum sjónarhólum, hafði orðið honum margvíslega að yrkisefni eins og kvæði hans frá þessum tíma sýna. Eitt þeirra var „Sofandinn í dalnum", um mann sem liggur í valnum eftir bardaga, og er það elegía um styrjaldir yfirleitt, en engin afstaða er þar tekin til þeirrar styrjaldar sem þá var að geysa. Í ýmsum skrifum Rimbauds frá þessum tíma kemur fram að hann var andvígur þeim þjóðernisæsingi sem henni hlaut óhjákvæmilega að fylgja, og í einu bréfi sínu slær hann saman orðunum „patríótismi" og „hræðsla" og býr þannig til nýyrði („patrouillotisme") til að hæðast að ótta manna í Ardenna-fjöllum við yfirgang Prússa. Í greininni um „Draum Bismarcks" kveður hins vegar við annan tón. Þar tekur blaðamaðurinn Rimbaud ótvíræða afstöðu og gerir nú gys að græðgi Prússa: „Komið er að kvöldi. Í tjaldi sínu fullu af þögn og draumum situr Bismarck hugsi með fingurinn á Frakklandskortinu; úr risastórri pípu hans líður blár reykur." Síðan er því lýst hvernig kanslarinn lætur fingurinn líða eftir kortinu, uns hann fer að dotta, hann missir pípuna og dettur loks með nefið niður í pípuhausinn... Ekki telja gagnrýnendur að þessi nýfundni texti bæti mikið við hróður skáldsins, en hann sýnir á því nýja og áður óþekkta hlið, og þá vaknar spurningin: er þessi „fantasía" (eins og textinn er kallaður í blaðinu) eitt merki um að skáld eru yfirleitt ekki hrædd við að lenda í mótsögn við sig sjálf, og segja eitt og annað ef sá gállinn er á þeim, eða er blaðamaðurinn Arthur Rimbaud hér fyrst og fremst að hugsa um að semja texta sem „hægt er að nota strax?" Þeirri spurningu verður ekki svarað, en menn hafa hins vegar bent á að stíll textans boði á sinn hátt þau voldugu prósaljóð sem skáldið átti síðar eftir að yrkja, þótt leiðin á milli sé löng. Því nú lagði Rimbaud blaðamennskuna á hilluna, ári síðar orti hann kvæðið um „Ölvaða bátinn" og var þá kominn í hóp mestu skálda Frakklands fyrr og síðar. Eftir það orti hann ljóðaflokkana „Árstíð í víti" og „Lýsingar", en venti svo sínu kvæði í kross, hætti að yrkja og fór til Eþíópíu þar sem hann stundaði vafasöm viðskipti. Og nú er blaðið þar sem kvikmyndatökumaðurinn fann textann metið á fjögur þúsund evrur, sjálfur er hann í óða önn að gera heimildarmynd um Rimbaud, en um öll Ardenna-fjöll leita menn dyrum og dyngjum að gömlum pappírum. En þessi saga staðfestir það sem oft hefur verið sagt, að blaðamennskan getur verið upphaf á hverju sem er, hún getur jafnvel verið undirbúningur að því að verða þrælasali í Eþíópíu, og stórskáld á leiðinni þangað. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun CP félagið, er það til? Steinunn Þorsteinsdóttir Skoðun Fjölmiðlanefnd í stað Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun
Fyrir skömmu var kvikmyndagerðarmaður einn að gramsa í gömlum blöðum í búð fornbókasala í bænum Charleville í Ardennafjöllum nyrst í Frakklandi, skammt frá landamærum Belgíu, og dró þá fram slitið eintak af dagblaði sem var dagsett 25. nóvember 1870. Hafði fornbókasalinn fengið það ásamt öðrum gömlum pappírum hjá konu einni sem var komin með þetta allt saman upp í bíl og á leiðinni með það á haugana, en síðan hafði það legið hjá honum óhreyft í tvö ár. Þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn var að kynna sér þá atburði í fransk-prússneska stríðinu 1870 sem orðið höfðu í Ardennafjöllum vísaði hann honum á bunkann. Þar var m.a. að finna þrjú tölublöð af blaðinu „Le Progres des Ardennes", sem var mjög fágætt, þar sem það hafði verið skammlíft og mjög svo staðbundið, og ekki voru nema slitur til af í bókasöfnum, og setti fornbókasalinn upp þrjátíu evrur fyrir hvert þeirra. Hjarta kvikmyndatökumannsins tók stóran kipp, í þessu tölublaði blasti nú við honum stutt grein sem nefndist „Draumur Bismarcks" og var merkt „Jean Baudry." Það hafði löngu verið vitað undir þessu dulnefni hafði enginn annar skrifað en Arthur Rimbaud - enda er „Baudry" að nokkru leyti „Rimbaud" öfugt - en hingað til hafði ekkert af þessum skrifum fundist, þau virtust glötuð með öllu. Því var ekki ljóst hvað hæft væri í þeirri tilgátu að á þessu skeiði ævinnar hefði skáldið verið að velta því fyrir sér að snúa sér í alvöru að blaðamennskunni. Reyndar var til bréf frá ritstjóra blaðsins til þessa dularfulla „Baudrys" þar sem hann bað hann um að hætta að senda sér ljóð, sem yrðu ekki birt, heldur skrifa í staðinn „greinar um málefni líðandi stundar sem hægt væri að nota strax." Greinarfundurinn sýnir að þessi orð féllu ekki í ófrjóan jarðveg, Rimbaud hafði fullan hug á að reyna fyrir sér á þessu sviði. Reyndar starfaði hann smátíma við þetta sama blað í apríl 1871, en af því sem hann kann þá að hafa skrifað hefur ekkert fundist. Á þeim tíma þegar Arthur Rimbaud skrifaði „Draum Bismarcks" var hann sextán ára gamall, menntaskólanemi í Charleville, og nýbúinn að strjúka að heiman í annað sinn, yfir til Charleroi í Belgíu. Þetta flakk hans, þar sem hann hafði getað skoðað heiminn og fylgst með framvindu í fransk-prússneska stríðinu frá ýmsum sjónarhólum, hafði orðið honum margvíslega að yrkisefni eins og kvæði hans frá þessum tíma sýna. Eitt þeirra var „Sofandinn í dalnum", um mann sem liggur í valnum eftir bardaga, og er það elegía um styrjaldir yfirleitt, en engin afstaða er þar tekin til þeirrar styrjaldar sem þá var að geysa. Í ýmsum skrifum Rimbauds frá þessum tíma kemur fram að hann var andvígur þeim þjóðernisæsingi sem henni hlaut óhjákvæmilega að fylgja, og í einu bréfi sínu slær hann saman orðunum „patríótismi" og „hræðsla" og býr þannig til nýyrði („patrouillotisme") til að hæðast að ótta manna í Ardenna-fjöllum við yfirgang Prússa. Í greininni um „Draum Bismarcks" kveður hins vegar við annan tón. Þar tekur blaðamaðurinn Rimbaud ótvíræða afstöðu og gerir nú gys að græðgi Prússa: „Komið er að kvöldi. Í tjaldi sínu fullu af þögn og draumum situr Bismarck hugsi með fingurinn á Frakklandskortinu; úr risastórri pípu hans líður blár reykur." Síðan er því lýst hvernig kanslarinn lætur fingurinn líða eftir kortinu, uns hann fer að dotta, hann missir pípuna og dettur loks með nefið niður í pípuhausinn... Ekki telja gagnrýnendur að þessi nýfundni texti bæti mikið við hróður skáldsins, en hann sýnir á því nýja og áður óþekkta hlið, og þá vaknar spurningin: er þessi „fantasía" (eins og textinn er kallaður í blaðinu) eitt merki um að skáld eru yfirleitt ekki hrædd við að lenda í mótsögn við sig sjálf, og segja eitt og annað ef sá gállinn er á þeim, eða er blaðamaðurinn Arthur Rimbaud hér fyrst og fremst að hugsa um að semja texta sem „hægt er að nota strax?" Þeirri spurningu verður ekki svarað, en menn hafa hins vegar bent á að stíll textans boði á sinn hátt þau voldugu prósaljóð sem skáldið átti síðar eftir að yrkja, þótt leiðin á milli sé löng. Því nú lagði Rimbaud blaðamennskuna á hilluna, ári síðar orti hann kvæðið um „Ölvaða bátinn" og var þá kominn í hóp mestu skálda Frakklands fyrr og síðar. Eftir það orti hann ljóðaflokkana „Árstíð í víti" og „Lýsingar", en venti svo sínu kvæði í kross, hætti að yrkja og fór til Eþíópíu þar sem hann stundaði vafasöm viðskipti. Og nú er blaðið þar sem kvikmyndatökumaðurinn fann textann metið á fjögur þúsund evrur, sjálfur er hann í óða önn að gera heimildarmynd um Rimbaud, en um öll Ardenna-fjöll leita menn dyrum og dyngjum að gömlum pappírum. En þessi saga staðfestir það sem oft hefur verið sagt, að blaðamennskan getur verið upphaf á hverju sem er, hún getur jafnvel verið undirbúningur að því að verða þrælasali í Eþíópíu, og stórskáld á leiðinni þangað.
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun