Lífið

Skjálftinn hindraði Sirrý ekki í að halda sjötugsafmælið

Fyrrverandi fegurðardrottningin Sirrý dó ekki ráðalaus í skjálftanum.
Fyrrverandi fegurðardrottningin Sirrý dó ekki ráðalaus í skjálftanum. Mynd/Lífið á Sigló

Sirrý Geirsdóttir, fyrrverandi fegurðardrottning, fagnaði 70 ára afmæli sínu í dag og hafði boðið til sín fjölda gesta á Hótel Örk í Hveragerði. Skjálftinn reið yfir um það leyti sem gestir voru að ganga í húsið. Að sögn Sirrýar urðu miklar skemmdir á hótelinu, einkum í eldhúsinu og var því ákveðið að hleypa engum inn í húsið.

Afmælisbarnið og gestir hennar dóu þó ekki ráðalaus heldur fluttu sig um set að sundlauginni við hótelið. Sirrý segir að veitingarnar hafi verið fluttar út í garðinn og gestir því getað gætt sér á kaffi, afmælistertu og öðru dýrðlegu meðlæti

Það var Heiðar snyrtir sem stýrði veislunni styrkri hendi, en stórsöngvarinn Geir Ólafsson hugðist syngja fyrir afmælisbarnið. Honum var snúið við af lögreglunni, eins og fjölmörgum öðrum sem hugðust keyra yfir heiðina og átti því ekki heimangengt.

Þegar Sirrý og Stefán Bjarnason, eiginmaður hennar, komu heim blasti við þeim ófögur sjón því innbúið í húsinu þeirra hafði allt dottið um koll og ýmsir munir brotnað. Það breytti því ekki að dagurinn var þeim hjónum ógleymanlegur að sögn Stefáns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.