Körfubolti

Var hissa eins og allir aðrir

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jakob, Benedikt og Jón Arnór. Mynd/Heimasíða KR
Jakob, Benedikt og Jón Arnór. Mynd/Heimasíða KR

KR-ingar fengu ekki bara besta körfuboltamann landsins í dag heldur ákvað besti leikstjórnandi landsins, Jakob Örn Sigurðarson, að stjórna umferðinni hjá KR-liðinu í vetur.

Jakob segir þá ákvörðun sína að koma heim hafi verið tekna áður en að hann heyrði af því hvað Jón Arnór Stefánsson ætlaði sér að gera. „Ég var hissa eins og allir aðrir að heyra af því að Jón Arnór ætlaði að spila með KR," segir Jakob.

Jakob lék í Ungverjalandi í fyrra og hefur þar á undan verið að spila í Þýskalandi og á Spáni auk þess sem hann lék í fjögur ár með Birmingham Southern háskólanum.

„Þetta er mjög spennandi vetur og manni hlakkar rosalega til að fara að spila aftur með KR. Þetta snérist aðallega um tilhlökkun og löngun um að koma aftur heim í eitt ár. Ég vildi koma aftur í KR og vera hjá fjölskyldu og vinum," segir Jakob.

„Ég er búin að vera í í átta ár úti og þetta er orðinn mjög langur tími. Það voru alveg nokkur tilboð í gangi og þetta var því eitthvað sem ég ákvað að gera fyrir sjálfan mig," segir Jakob en áður en hann fer á fullt með KR þá er landsliðið á leiðinni á æfingamót á Írlandi og svo taka við leikir í Evrópukeppninni.

„Það fer að styttast í að við getum byrjað inn á með heilt KR-lið í landsliðinu," segir Jakob í léttum tón en hann segist ekki þurfa langan tíma á að læra að spila með Jóni Arnóri. „Við spiluðum saman þegar við vorum yngri og höfum líka alltaf spilað saman á sumrin. Við þekkjumst því vel. Það er frábært að fá að spila með Jóni Arnóri í KR. Hann er frábær leikmaður og það verður mjög gaman að spila með honum og öllu hinum gömlu félögunum," segir Jakob.


Tengdar fréttir

„Ætlaði ekki að trúa því að Jón Arnór vildi koma í KR“

Benedikt Guðmundsson þjálfari körfuknattleiksliðs KR segir að bæði Jón Arnór Stefánsson og Jakob Sigurðarson hafi viljað koma heim og spila eitt tímabil með sínu gamla félagi. Þeir hafa lengi verið atvinnumenn erlendis en semja nú við sitt gamla félag til eins árs. Benedikt býst við fleiri kvenmönnum á leiki KR í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×