Viðskipti innlent

Óvissa um IMF-lánið

Óvissa ríkir um lánafyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til íslenskra stjórnvalda, vegna þess að fulltrúar Breta í sjóðnum setja sem skilyrði fyrir lánveitingunni, að fyrst verði samið við Breta vegna Icesave-reikninganna.

Þetta kemur fram í viðtali Fréttablaðsins við Árna Þór Sigurðsson, þingmann vinstri-grænna, sem er í íslensku þingmannanefndinni sem heimsótti Brussel fyrr í vikunni. Árni Þór líkir þessu við fjárkúgun og segist hafa látið það í ljós við viðkomandi ytra.

Sama mun vera uppi á teningnum varðandi fyrirgreiðslu úr neyðarsjóði Evrópusambandsins, en fram kom fyrir nokkrum dögum að Ísland væri á lista sérstakra ríkja utan sambandsins, sem til greina kæmi að sjóðurinn aðstoðaði.

Upphaflega átti að fjalla um mál Íslands í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í fyrradag, en vegna andstöðu Breta og líka Hollendinga, hefur því verið frestað til morguns.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×