Fastir pennar

Við hvað eru menn hræddir?

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Það er út af fyrir sig gleðiefni að nú glittir í að reglur um skráningu eigna þingmanna líti dagsins ljós. Svo virðist þó sem reglur þessar verði í nokkru skötulíki þegar upp verður staðið.

Í reglunum er gert ráð fyrir að þingmenn gefi upp eignir sínar. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að eignir maka verði gefnar upp, telji hjón fram saman til skatts. Hins vegar virðast reglurnar ekki taka til skulda þingmanna, né heldur er gert ráð fyrir að þeir greini frá hagsmunatengslum, svo sem stjórnarsetu í fyrirtækjum. Þetta eru of miklir gallar til að við verði unað.

Það sem einnig stingur í augun er að svo virðist sem gert sé ráð fyrir að reglurnar verði valkvæðar, þ.e. að hverjum og einum þingmanni verði í raun í sjálfsvald sett hvort hann gefi yfir höfuð upp eignir sínar eða ekki. Ef þetta er raunin er ekki annað hægt en að spyrja hinnar augljósu spurningar: Við hvað eru menn hræddir? Og til hvers að setja reglur um hluti sem hver og einn sómakær þingmaður ætti að geta gert kjósendum sínum grein fyrir með glöðu geði, ef þær skylda ekki þingmennina til þess arna?

Vitanlega má gera ráð fyrir að reglurnar skapi ákveðinn þrýsting þannig að ef þingmenn skorist undan að gefa upp um eignatengsl sín þá sé líklegt að þeir hafi eitthvað að fela. Það breytir því ekki að langeðlilegast væri að þeim sem kjörnir eru til að gegna trúnaðarstörfum sé skylt að gefa upp um eignatengsl sín, hagsmunatengsl, skuldir og skuldunauta.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Framsóknarflokks hafa þegar riðið á vaðið og birt upplýsingar um eignir sínar og tengsl. Þetta er til eftirbreytni og í raun ættu aðrir þingmenn að taka framsóknarmenn og Vinstri græna sér til fyrirmyndar strax og bíða ekki eftir að reglurnar verði settar.

Það ætti að vera sjálfsagður réttur kjósenda að vita um hagsmunatengsl þess fólks sem það kýs til setu á Alþingi. Í raun ættu sambærilegar reglur að ná til allra kjörinna fulltrúa, sveitarstjórnarmanna og forseta Íslands.

Það verður þó að segjast að það er galli við reglurnar að skuldir þingmannanna skuli ekki eiga að vera uppi á borðinu, eins og eignir. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur bent á að prófkjörsbarátta verðandi þingmanna verði stöðugt dýrari og nemi jafnvel nokkrum milljónum. Því sé nauðsynlegt að kjósendur viti hverjir bakhjarlar þingmannanna séu.

Hagsmunatengsl svo sem stjórnarseta í fyrirtækjum hlýtur einnig að þurfa að vera uppi á borðinu. Ljóst er að slík tengsl hafa í sumum tilvikum ekki minna að segja en bein eignatengsl.

Rök sem snúa að því að um einkamál þingmannanna sé að ræða halda ekki. Kjörnir fulltrúar verða að standa skil á þessum hlutum gagnvart kjósendum sínum.

Þegar upp er staðið hlýtur krafan að vera að settar verði bindandi reglur um að eignir, skuldir og hagsmunatengsl kjörinna fulltrúa verði settar. Hér verður allt að vera uppi á borðinu. Erfitt er að koma auga á rök gegn því, nema að menn hafi raunverulega eitthvað að fela.










×