Löggæsla er ekki átaksverkefni Jón Kaldal skrifar 26. mars 2008 06:00 Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá því að brotum gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkur hefði snarfækkað frá því að þau voru flest síðastliðið haust. Meðal brota af þessu tagi er til dæmis þegar fólk kastar af sér vatni á almannafæri. Sóðaskapur og skrílslæti í miðbænum voru einmitt mjög til umræðu síðsumars í fyrra. Í kjölfarið svöruðu stjórnendur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu loks kallinu um að skynsamlegt væri að hafa fótgangandi lögreglumenn við eftirlit með næturlífinu, fremur en að horfa á atganginn af skjám eftirlitsmyndavéla og út um bílrúður. Fjölgað var í lögregluliðinu á vakt í miðbænum um helgar og meðlimir í sérsveit ríkislögreglustjórans sáust jafnvel fara þar um götur. Allt í einu var komin sýnileg löggæsla í bæinn. Sóðarnir sem migu á veggi húsa eða brutu bjórflöskur þar sem þeim sýndist gátu átt von á því að vera handteknir og sektaðir fyrir dólgslætin. Afraksturinn af breyttu vinnulagi lét ekki á sér standa. Í september einum voru færð til bókar 190 brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkur, sem er nálægt þriðjungur skjalfestra brota alls ársins 2007. Út frá nýjustu tölum um stórfelldan samdrátt í brotum á lögreglusamþykktinni, má draga tvær ályktanir. Sú fyrri er að áhrifin af aðgerðum lögreglunnar séu afbragð og að gestir í miðbænum séu loksins farnir að hegða sér eins og fólk. Sú seinni er að allt sé komið í sama farið og áður. Enda eru tölurnar um þessi brot á svipuðum slóðum og áður en umræðan um ástandið hófst í fyrra. Því miður geta þeir sem hafa átt leið um miðbæinn að nóttu til um helgar undanfarnar vikur ekki komist að annarri niðurstöðu en að seinni tilgátan sé nærri lagi. Í miðbænum sést nú varla lögregluþjónn á rölti, hvað þá einhverjir úr sérsveit ríkislögreglustjórans. Glerbrotin á götunum eru hins vegar á sínum stað og það er aftur orðin hversdagsleg sjón að sjá menn míga utan í Héraðsdóm Reykjavíkur í Austurstræti eða annars staðar þar sem þeim dettur í hug þá stundina. Í Fréttablaðinu í gær var talað við Árna Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjón. Ekki er hægt að skilja orð hans á annan hátt en að búið sé að taka aftur upp gamla vinnulagið með eftirlitsmyndavélum og lögregluþjónum inni í bílum. Getur verið að menn hafi virkilega verið svona ánægðir með árangurinn af því fyrirkomulagi? Erfitt er að álykta annað en að sýnilega löggæslan síðasta haust hafi einungis verið sviðsetning til að slá á erfiða umræðu. Hvað varð til dæmis um þá ágætu hugmynd Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra að koma upp færanlegri lögreglustöð í miðbænum? Aðstoðaryfirlögregluþjónninn talar um átak lögreglunnar í miðbænum síðastliðið haust í frétt blaðsins í gær. Það er skrítin hugmynd ef menn álíta að löggæslu sé hægt að sinna sem átaksverkefni. Löggæsla er stöðug vinna. Það má líkja henni við að draga sleða upp brekku sem aldrei endar. Ef maður sleppir þá rennur sleðinn aftur niður. Það er reyndar engin ástæða til að efast um að stjórnendur lögreglunnar átti sig ekki á þeirri staðreynd. Vandi lögreglunnar í miðbænum er sá sami og blasir við víða um land. Það skortir fé og mannskap til að halda uppi viðunandi löggæslu. Þann vanda geta þeir einir leyst sem fara með fjárlagavaldið. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Kaldal Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Í Fréttablaðinu í gær var sagt frá því að brotum gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkur hefði snarfækkað frá því að þau voru flest síðastliðið haust. Meðal brota af þessu tagi er til dæmis þegar fólk kastar af sér vatni á almannafæri. Sóðaskapur og skrílslæti í miðbænum voru einmitt mjög til umræðu síðsumars í fyrra. Í kjölfarið svöruðu stjórnendur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu loks kallinu um að skynsamlegt væri að hafa fótgangandi lögreglumenn við eftirlit með næturlífinu, fremur en að horfa á atganginn af skjám eftirlitsmyndavéla og út um bílrúður. Fjölgað var í lögregluliðinu á vakt í miðbænum um helgar og meðlimir í sérsveit ríkislögreglustjórans sáust jafnvel fara þar um götur. Allt í einu var komin sýnileg löggæsla í bæinn. Sóðarnir sem migu á veggi húsa eða brutu bjórflöskur þar sem þeim sýndist gátu átt von á því að vera handteknir og sektaðir fyrir dólgslætin. Afraksturinn af breyttu vinnulagi lét ekki á sér standa. Í september einum voru færð til bókar 190 brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkur, sem er nálægt þriðjungur skjalfestra brota alls ársins 2007. Út frá nýjustu tölum um stórfelldan samdrátt í brotum á lögreglusamþykktinni, má draga tvær ályktanir. Sú fyrri er að áhrifin af aðgerðum lögreglunnar séu afbragð og að gestir í miðbænum séu loksins farnir að hegða sér eins og fólk. Sú seinni er að allt sé komið í sama farið og áður. Enda eru tölurnar um þessi brot á svipuðum slóðum og áður en umræðan um ástandið hófst í fyrra. Því miður geta þeir sem hafa átt leið um miðbæinn að nóttu til um helgar undanfarnar vikur ekki komist að annarri niðurstöðu en að seinni tilgátan sé nærri lagi. Í miðbænum sést nú varla lögregluþjónn á rölti, hvað þá einhverjir úr sérsveit ríkislögreglustjórans. Glerbrotin á götunum eru hins vegar á sínum stað og það er aftur orðin hversdagsleg sjón að sjá menn míga utan í Héraðsdóm Reykjavíkur í Austurstræti eða annars staðar þar sem þeim dettur í hug þá stundina. Í Fréttablaðinu í gær var talað við Árna Þór Sigmundsson aðstoðaryfirlögregluþjón. Ekki er hægt að skilja orð hans á annan hátt en að búið sé að taka aftur upp gamla vinnulagið með eftirlitsmyndavélum og lögregluþjónum inni í bílum. Getur verið að menn hafi virkilega verið svona ánægðir með árangurinn af því fyrirkomulagi? Erfitt er að álykta annað en að sýnilega löggæslan síðasta haust hafi einungis verið sviðsetning til að slá á erfiða umræðu. Hvað varð til dæmis um þá ágætu hugmynd Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra að koma upp færanlegri lögreglustöð í miðbænum? Aðstoðaryfirlögregluþjónninn talar um átak lögreglunnar í miðbænum síðastliðið haust í frétt blaðsins í gær. Það er skrítin hugmynd ef menn álíta að löggæslu sé hægt að sinna sem átaksverkefni. Löggæsla er stöðug vinna. Það má líkja henni við að draga sleða upp brekku sem aldrei endar. Ef maður sleppir þá rennur sleðinn aftur niður. Það er reyndar engin ástæða til að efast um að stjórnendur lögreglunnar átti sig ekki á þeirri staðreynd. Vandi lögreglunnar í miðbænum er sá sami og blasir við víða um land. Það skortir fé og mannskap til að halda uppi viðunandi löggæslu. Þann vanda geta þeir einir leyst sem fara með fjárlagavaldið.