Handbolti

Fyrsta tap íslensku stúlknanna í Makedóníu

Stefán Arnarsson
Stefán Arnarsson

Íslenska stúlknalandsliðið skipað 20 ára leikmönnum og yngri tapaði í kvöld fyrsta leiknum sínum á HM sem fram fer í Makedóníu þegar það lá 32-28 fyrir Rúmenum.

Þetta var fyrsta tap stúlknanna á mótinu en fyrir leikinn í kvöld höfðu þær gert tvö jafntefli og unnið frækinn sigur á Þjóðverjum í gær.

Það var á brattann að sækja fyrir stelpurnar í kvöld, en þær voru undir 15-13 í hálfleik. Þær lentu átta mörkum undir þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum, en íslenska liðið svaraði þá með fimm marka rispu og hleypti spennu í leikinn. Þær rúmensku svöruðu þá með þremur mörkum í röð þegar fimm mínútur voru til leiksloka og gerðu út um leikinn.

Íslenska liðið verður nú að bíða þangað til annað kvöld til að fá úr því skorið hvort það kemst í milliriðil á mótinu, en til að svo verði þarf þýska liðið að tapa fyrir Ungverjum annað kvöld.

"Stelpurnar eru mjög þreyttar og ég er ekki viss um að stigin fjögur sem við höfum fengið verði nóg til að koma okkur áfram. Ég sé þýska liðið ekki tapa fyrir Ungverjum á morgun," var haft eftir Stefáni Arnarssyni á heimasíðu keppninnar í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×