Golf

Tiger keppir ekki meira í ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tiger Woods var sárkvalinn á opna bandaríska meistaramótinu um helgina.
Tiger Woods var sárkvalinn á opna bandaríska meistaramótinu um helgina. Nordic Photos / Getty Images

Tiger Woods verður frá það sem eftir lifir keppnistímabilsins þar sem hann mun gangast undir aðgerð á hné.

Hann var frá í tvo mánuði þar til hann keppti á opna bandaríska meistaramótinu um helgina. Hann meiddist á þriðja keppnisdegi mótsins en kláraði það engu að síður og bar á endanum sigur úr býtum.

En hann mun missa af opna breska meistaramótinu, PGA-meistaramótinu og Ryder-bikarkeppninni.

„Nú er kominn tími til að ég hlusti á mína lækna og einbeiti mér að þeirri endurhæfingu sem er framundan," sagði Woods í orðsendingu á heimasíðu sinni.

Hann mun einnig hafa brákast á tveimur stöðum á vinstri fótleggnum í undirbúningi sínum fyrir mótið sem var afar strangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×