Fastir pennar

Pólitískt sakamál?

Björn Ingi Hrafnsson skrifar

Niðurstaða mestu lögspekinga þjóðarinnar liggur fyrir í Baugsmálinu. Dómur Hæstaréttar er fallinn. Við blasir að uppskera ákæruvaldsins í umsvifamestu rannsókn á meintum efnahagsbrotum í Íslandssögunni er ákaflega rýr. Jón Ásgeir Jóhannesson er sýknaður í sextán af sautján ákæruatriðum.

Jafnljóst er, að stuttur og skilorðsbundinn fangelsisdómur er engu að síður mikið áfall fyrir einn umtalaðasta viðskiptamann þjóðarinnar og ýmsar lagalegar afleiðingar dómsins geta reynst mun afdrifaríkari en skilorðsbundin refsingin ein og sér, svo ekki sé vikið að persónulegri hlið málsins.

Ekki dugir að deila við dómarann, svo mikið er víst, en hefur öll sagan verið sögð í Baugsmálum? Í Fréttablaðinu í gær var rætt við ýmsa stjórnmálamenn. Rétt er að staldra við nokkur ummæli sem þar féllu og sæta í raun stórum og miklum tíðindum. Í öllum öðrum löndum myndu þau ein og sér hafa víðtækar afleiðingar.

„Réttarvörslukerfið var á villigötum í þessu máli. Upphafið var pólitískt og persónulegt og eftirleikurinn eftir því," sagði Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður og þingmaður Vinstri grænna. Hann bætti við: „Málið var aðför frá upphafi til enda. Þetta er áfall fyrir réttarvörslukerfið." Jón Magnússon, hæstaréttarlögmaður og þingmaður Frjálslyndra, sagði þetta: „Mér finnst um málið í heild að hátt hafi verið reitt til höggs en útkoman svo rýr að það er nánast með ólíkindum."

Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður Framsóknarflokksins og fv. ráðherra, sagðist telja að þessi niðurstaða kalli á áframhaldandi umræðu. „Ég hef áður látið þau orð falla að hátt hafi verið reitt til höggs í málinu," sagði hún. Lúðvíks Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði: „Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að málið hafi verið byggt á veikum grunni. Þetta mál mun örugglega verða skoðað vandlega. Það er mikilvægt að fara vandlega í saumana á því."

Það að þjóðkjörnir fulltrúar telji að „hátt hafi verið reitt til höggs" og rannsóknin hafi verið „aðför" og upphafið „pólitískt og persónulegt" er auðvitað grafalvarlegt fyrir lögreglu og ákæruvaldið í landinu. Þess vegna er alveg rétt að fara verði betur ofan í saumana á því.

Hvernig verður það best gert? Hvernig verður þessari óþolandi tortryggni og alvarlegu ásökunum eytt? Varla vill lögregla eða ákæruvald sitja undir þessum ásökunum? Við þessar aðstæður er réttast að óháðir aðilar, til dæmis fyrrverandi hæstaréttardómarar, eða sérstök rannsóknarnefnd Alþingis, verði fengnir til þess að rannsaka þessi mál sérstaklega og koma öllu upp á borðið í þeim efnum, í eitt skipti fyrir öll. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hlýtur að hafa forystu í þeim efnum, jafnoft og hann hefur gagnrýnt „leyndarhjúp" á öðrum vettvangi og krafist þess að öll spilin séu lögð á borðið.

Niðurstaða dómsmálsins liggur fyrir, henni verður ekki breytt. En við eigum sem þjóð að hafa lært sitthvað af biturri reynslu fortíðarinnar, til dæmis úr Hafskipsmálinu. Staðreyndin er sú, að enn er mörgum stórum og erfiðum spurningum ósvarað.

Við það verður ekki unað.






×