Fastir pennar

Greining og hættumat

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Kjartan Ólafsson hefur farið fram á það við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra að hann biðjist fyrir hönd ríkisins afsökunar á því að sími Kjartans og annarra var hleraður á sínum tíma. Björn hefur svarað því efnislega svo að dómur sögunnar sé fallinn. Kjartan og allt hitt fólkið hafi átt hleranirnar skilið.

Rétt eins og nafnbótin dómsmálaráðherra veiti vald til að fella þann dóm.

Das Leben der AnderesÍ blaði var haft eftir Birni í umræðum á alþingi um þessar símhleranir að hann sjálfur vissi meira um þessi mál en aðrir þátttakendur í umræðunni því hann hefði kynnt sér þau svo vel.

Málshefjandi umræðunnar var Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. Þegar hann var eins árs var síminn hleraður heima hjá foreldrum hans, Úlfi og Helgu Hjörvar 1968, en lengra ná gögn um þessar njósnir ekki. Meðan mamma hans eða pabbi hafa verið að segja nákomnum ættingjum frá stráknum sínum þá hefur setið á Lögreglustöðinni óvandabundinn fjandmaður og hlustað og skrifað skýrslu handa þeim sem allt þurfti að vita, búinn að hreiðra um sig í lífi fjölskyldunnar eins og ókunn óværa. Svo hefur hann farið að hlusta á Arnar Jónsson tala við pabba sinn eða Finnboga Rút tala við tengdason sinn...

Við þekkjum þessa afkáralegu sítúasjón úr þýsku myndinni Das Leben der Anderes þar sem segir frá hlerunum í Austur-Þýskalandi en Björn Bjarnason hefur einmitt sakað Kjartan Ólafsson um tengsl við það ríki í málsvörn sinni. Samt er það svo að það eru aðgerðir sjálfstæðismannanna sem líkjast aðferðum austur-þýsku kommúnistanna. Hlutskipti Kjartans er andófsmannsins.

Í svari sínu segir Björn Bjarnason efnislega við Helga Hjörvar: sökum yfirburða þekkingar minnar á þessum málefnum veit ég að foreldrar þínir voru hættulegir þjóðaröryggi. Þau voru glæpamenn. Þau voru sambærileg við hryðjuverkamenn nútímans. Þau fyrirgerðu rétti sínum til einkalífs. Þú og þitt fólk eigið ekki tilkall til sömu mannréttinda og ég og mitt fólk. Dómur sögunnar er fallinn: við höfðum rétt fyrir okkur, þið rangt.

Var Arnar Jónsson terroristi?Við búum sem sé við dómsmálaráðherra sem ber ekki skynbragð á lýðréttindi borgaranna og telur glæpsamlegt að hafa aðrar stjórnmálaskoðanir en hann sjálfur. Og fólk með rangar skoðanir lítur hann á sem annars flokks borgara. Erfitt er að una því að ráðherra með slíkar ranghugmyndir sitji í skjóli Samfylkingarinnar.

Í svari sínu verður Birni tíðrætt um hina svokölluðu „hættu á hryðjuverkum" sem reynst hefur eftirlitssinnuðum ráðamönnum eins og honum sannkölluð himnasending. Þar með leggur hann að jöfnu sjálfsmorðssprengjumenn nútímans og til dæmis Arnar Jónsson og Þórhildi Þorleifsdóttur. Erfitt er að styðja ríkisstjórn sem felur manni með slíka sýn á meðborgara sína að hafa yfirumsjón með eftirliti og öryggi.

Kannski mun sagan dæma störf til dæmis Lúðvíks Jósepssonar. Kannski var hann of bjartsýnn í skuttogaraæðinu, og kannski hélt hann að Íslendingar myndu ganga vel um auðlindina þegar hann hafði forystu um útfærslu landhelginnar í tíð fyrri vinstri stjórnarinnar. En hann var ekki óþjóðhollur maður. Sími Lúðvíks var hleraður árið 1961, eftir að hann hafði gegnt ráðherradómi og knúið fram útfærslu landhelginnar. Þetta var á þeim tíma þegar sjálfstæðismenn voru að semja við Breta og Þjóðverja um lyktir landhelgismálsins og binda hendur Íslendinga í því máli.

Í því ráðabruggi var Lúðvík helsti andstæðingur stjórnar­innar og fráleitt annað en að tengja hleranirnar því. Sem sé: pólitískar njósnir um andstæðing og áform hans.

Finnbogi Rútur er almennt talinn hafa verið lykilmaður í alls kyns brúarsmíði í pólitíkinni. Sími hans var hleraður og þar með hefur Bjarni Ben. eflaust fengið ýmsar ómetanlegar upplýsingar. Aftur: ríkisvaldinu beitt í þágu eins flokks.

Greining og hættumat hvers?Í ræðu sinni á alþingi lagði Björn Bjarnason megináherslu á samhengið í njósnastarfsemi lögreglunnar, hún starfi eins í dag og hún gerði þá: „Lögregla skipuleggur aðgerðir í samræmi við greiningu og hættumat,“ segir hann af marskálkslegum myndugleik.

Þessi ummæli hljóta að vekja ugg. Er hættumatið og greiningin eins og þegar síminn var hleraður hjá Úlfi Hjörvar? Ætli síminn sé ekki enn hleraður hjá Ragnari Arnalds? Verða Björn og Haraldur Johannesen ekki að fá að vita „í samræmi við greiningu og hættumat“ hvað Steingrímur J. og Katrín Jakobsdóttir eru að bralla?  Má ekki ganga út frá því sem vísu að sími Stefáns Pálssonar sé hleraður? Árni Finnsson, Guðmundur Páll Ólafsson og aðrir forystumenn náttúrverndarfólks – eru þeir ekki þjóðhættulegir að mati Björns? Er Ingibjörgu Sólrúnu treystandi?

Sennilega er tímabært að fram fari „greining og hættumat“ á störfum dómsmálaráherrans.






×