Sumar á Hofsósi Gerður Kristný skrifar 19. júlí 2008 06:00 Ísland og Ameríka mætast á flotbryggjunni við Hofsána. Þar stika bandarískar smástelpur fram og aftur og segja kátar: „I'm on a catwalk." Þær dilla sér í mjöðmunum eins og fyrirsætur sem aldrei hafa migið í saltan sjó en finnist manni slíka reynslu vanta í ferilskrána býðst tækifærið hér. Þegar þokan leggst yfir Hofsós svo enginn sér handa sinna skil er hægur vandi að laumast út og láta ótrúlegustu drauma rætast. Þessi staður ætti vel heima í einum af þessum bresku sjónvarpsþáttum um ungan prest eða kannski lækni sem snýr aftur í þorpið þar sem hann ólst upp. Hér er allt sem þarf; ein kirkja, ein verslun, einn skóli, eitt safn, einn veitingastaður og að minnsta kosti eitt aðkomuskáld. Það er hinn hrímhærði Bill Holm sem talar við ókunnuga eins og hann hafi þekkt þá alla sína ævi og lætur fátt setja sig út af laginu. Að minnsta kosti sér hann ekki ástæðu til að gera hlé á frásögn sinni þegar ég læt Barokkmeistarann eftir Margréti Eggertsdóttur vaða ofan á könguló sem hættir sér yfir stofugólfið. Þegar sögunni lýkur ráðleggur Bill mér þó að sleppa því að fara til Ástralíu, köngulærnar séu öllu fyrirferðarmeiri þar. Bill er af vestur-íslenskum ættum og sama á við um kana-díska ættfræðinginn Nelson Gerrard sem hefst við í Vesturfarasetrinu. Þar hefur hann sett upp merkilega sýningu á ljósmyndum úr fórum Vestur-Íslendinga. Fermingarbörn, gamalmenni, brúðhjón, ungbörn og hermenn horfa hátíðleg inn í myndavélina og heil ævisaga leynist oft í myndatextum Nelsons. Ég laumast til að spyrja hann hvort einhver ættingja minna hafi flust vestur á sínum tíma. Nelson sest við tölvuna og skrollar svo langt aftur í aldir að undir lokin bera flestir ákaflega vafasöm viðurnefni. Enginn Vestur-Íslendingur finnst þó. Áhugi minn á fjarlægum heimum hefur samt vaknað og ég leggst í bækur um miðla sem sendu framliðna lækna til veikra kvenna. Þeir birtust þeim um nætur og fóru höndum um brjóst þeirra og lær. Allar vöknuðu þær svona líka fjallhressar og algjörlega kommulausar næsta morgun. Litlu fyrir brottför rekst ég á Nelson sem hefur fréttir að færa. Hann hefur fundið skyldmenni mín sem héldu til Vesturheims og þar sem þau voru frá Króksfjarðarnesi tóku þau upp nafnið Crawford. Enn og aftur, Ísland og Ameríka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Styrkjum stöðu sjúkraliða fyrir betri heilbrigðisþjónustu Sandra B. Franks Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sterk sveitarfélög skipta máli Heiða Björg Hilmisdóttir Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Vilja Ísland í evrópskt sambandsríki Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun
Ísland og Ameríka mætast á flotbryggjunni við Hofsána. Þar stika bandarískar smástelpur fram og aftur og segja kátar: „I'm on a catwalk." Þær dilla sér í mjöðmunum eins og fyrirsætur sem aldrei hafa migið í saltan sjó en finnist manni slíka reynslu vanta í ferilskrána býðst tækifærið hér. Þegar þokan leggst yfir Hofsós svo enginn sér handa sinna skil er hægur vandi að laumast út og láta ótrúlegustu drauma rætast. Þessi staður ætti vel heima í einum af þessum bresku sjónvarpsþáttum um ungan prest eða kannski lækni sem snýr aftur í þorpið þar sem hann ólst upp. Hér er allt sem þarf; ein kirkja, ein verslun, einn skóli, eitt safn, einn veitingastaður og að minnsta kosti eitt aðkomuskáld. Það er hinn hrímhærði Bill Holm sem talar við ókunnuga eins og hann hafi þekkt þá alla sína ævi og lætur fátt setja sig út af laginu. Að minnsta kosti sér hann ekki ástæðu til að gera hlé á frásögn sinni þegar ég læt Barokkmeistarann eftir Margréti Eggertsdóttur vaða ofan á könguló sem hættir sér yfir stofugólfið. Þegar sögunni lýkur ráðleggur Bill mér þó að sleppa því að fara til Ástralíu, köngulærnar séu öllu fyrirferðarmeiri þar. Bill er af vestur-íslenskum ættum og sama á við um kana-díska ættfræðinginn Nelson Gerrard sem hefst við í Vesturfarasetrinu. Þar hefur hann sett upp merkilega sýningu á ljósmyndum úr fórum Vestur-Íslendinga. Fermingarbörn, gamalmenni, brúðhjón, ungbörn og hermenn horfa hátíðleg inn í myndavélina og heil ævisaga leynist oft í myndatextum Nelsons. Ég laumast til að spyrja hann hvort einhver ættingja minna hafi flust vestur á sínum tíma. Nelson sest við tölvuna og skrollar svo langt aftur í aldir að undir lokin bera flestir ákaflega vafasöm viðurnefni. Enginn Vestur-Íslendingur finnst þó. Áhugi minn á fjarlægum heimum hefur samt vaknað og ég leggst í bækur um miðla sem sendu framliðna lækna til veikra kvenna. Þeir birtust þeim um nætur og fóru höndum um brjóst þeirra og lær. Allar vöknuðu þær svona líka fjallhressar og algjörlega kommulausar næsta morgun. Litlu fyrir brottför rekst ég á Nelson sem hefur fréttir að færa. Hann hefur fundið skyldmenni mín sem héldu til Vesturheims og þar sem þau voru frá Króksfjarðarnesi tóku þau upp nafnið Crawford. Enn og aftur, Ísland og Ameríka.