Fullveldi er sameign Þorvaldur Gylfason skrifar 31. júlí 2008 06:00 Hvað er til bragðs að taka, þegar ríkisstjórn lands leggur efnahag fólks og fyrirtækja í rúst? Þessi spurning brennur á sárþjáðri alþýðu í Simbabve og Búrmu. Þessi tvö lönd eiga það sammerkt, að ríkisstjórnir þeirra, eða öllu heldur einræðisherrarnir Róbert Múgabe og Than Shwe, hafa leyft sér að stöðva matvælasendingar Sameinuðu þjóðanna handa sveltandi fólki með þeim rökum, að ekki sé hægt að líða erlend afskipti af innanlandsmálum. Þeir líta á neyðarhjálpina sem árás á fullveldi landanna. Ástand beggja landa er hörmulegt. Blöðin í Suður-Afríku sögðu nýlega frá kennslukonu í Simbabve með 60 milljarða dollara í mánaðarlaun. Launin duga fyrir tólf tómötum. Það myndi kosta hana 40 milljarða dollara á dag að taka rútu í skólann. Hún gengur marga klukkutíma á dag. Mörgum sýnist, að ríku löndin haldi áfram að þjösnast á þróunarlöndunum. Nýlenduveldin komu að ýmsu leyti illa fram við nýlendur sínar í Afríku og Asíu, stundum mjög illa. Margir líta svo á, að yfirgangurinn haldi áfram. Innrásin í Írak 2003 ýtti undir þessa skoðun. Jafnvel Alan Greenspan, þá seðlabankastjóri Bandaríkjanna, staðhæfir í sjálfsævisögu sinni, að Bandaríkjamenn hafi ráðizt inn í Írak til að tryggja yfirráð sín yfir olíulindum Íraks. Stjórnarskrá Íraks frá 2005 skilgreinir þó olíuna sem þjóðareign Íraka. Múgabe og Shwe gera út á þá söguskoðun, að iðnríkin ógni þróunarlöndunum og ásælist auðlindir þeirra, og benda á Írak máli sínu til stuðnings.Hvað er hægt að gera?Hvað er hægt að gera við lönd eins og Simbabve og Búrmu? Vilji kjósenda hefur verið virtur að vettugi í báðum löndum. Ekki verður séð, að hægt sé að koma harðstjórunum tveim frá völdum án hernaðaríhlutunar. Ein leiðin er að ráðast inn, ryðja einræðisherrunum úr vegi með valdi, afhenda réttkjörnum stjórnarandstæðingum landsstjórnarvaldið og hverfa síðan á braut með innrásarherinn. Þannig fór til dæmis Tansaníuher að því að leysa Úgöndu undan ógnarstjórn Ídís Amín á sínum tíma, þótt ekki tæki miklu betra við fyrr en síðar.Í Búrmu og Simbabve leikur þó enginn vafi á, hverjir eru réttkjörnir leiðtogar landanna. Aung San Suu Kyi, síðar handhafi friðarverðlauna Nóbels, leiddi stjórnarandstöðuna til sigurs í þingkosningum í Búrmu 1990, en henni hefur æ síðan verið haldið í stofufangelsi með stuttum hléum. Hún er réttkjörinn leiðtogi lands síns. Verklýðsforinginn Morgan Tsvangíræ sigraði Múgabe í fyrri umferð forsetakosninganna í Simbabve um daginn þrátt fyrir kosningasvik af hálfu Múgabes, en Tsvangíræ neyddist til að draga sig í hlé í síðari umferðinni vegna ofbeldisverka af völdum Múgabes og manna hans. Múgabe segir, að guð einn geti komið honum frá völdum.Tsvangíræ er rétt kjörinn leiðtogi Simbabve. Það stæði við eðlilegar aðstæður og í ljósi sögunnar upp á Breta að ráðast ásamt til dæmis herjum Indlands og Suður-Afríku inn í Búrmu og Simbabve og skipta um ríkisstjórnir, en Bretar eru bundnir í Írak og Afganistan og treysta sér ekki heldur eins og sakir standa til hernaðar í öðrum heimshlutum.Brezki hagfræðingurinn Paul Collier, prófessor í Oxford, stakk upp á því í Washington Post um daginn, að Evrópusambandið gæti liðkað til með því að gefa innlendum herforingjum grænt ljós á uppreisn án beinnar íhlutunar, en kannski myndu þeir þá neyta lags og hrifsa völdin til sín frekar en að afhenda þau réttkjörnum leiðtogum. Staðan er þröng. Stundum er ekki hægt að tryggja framfarir og frið nema með valdi.Opin lönd og lokuðLöndum heimsins er hægt að skipta í tvo flokka: opin lönd og lokuð. Opnu löndin deila fullveldi sínu fúslega hvert með öðru. Þau skilja, að fullveldi er sameign líkt og lífið sjálft og gefur mest af sér, sé því deilt með öðrum. Lokuðu löndin heimta á hinn bóginn fortakslaust fullveldi. Þar eru löggjafarsamkundan, fjölmiðlar og dómstólar á bandi stjórnarherranna.Þýzkaland er í efnahagslegu tilliti mörg hundruð sinnum öflugra en Simbabve. Hvort landið skyldi heimta fullt og óskorað sjálfstæði í peningamálum, ríkisfjármálum, viðskiptum, sjálfstæða þjóðmynt og dómstóla, sem bjóða ekki upp á neinn rétt til áfrýjunar á erlendum vettvangi? Svarið er Simbabve. Þjóðverjar kjósa heldur að deila sjálfstæði sínu í peningamálum, ríkisfjármálum, viðskiptamálum og dómsmálum með öðrum þjóðum á vettvangi Evrópusambandsins. Robert Múgabe og Than Shwe hafa miklu meiri völd í Simbabve og Búrmu en Angela Merkel kanslari hefur í Þýzkalandi. Opin lönd lyfta lífskjörum og réttindum almennings, lokuð lönd skerða lífskjör og mannréttindi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Samfélag án Pírata Lenya Rún Taha Karim Skoðun Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Foreldrar, ömmur og afar þessa lands - áskorun til ykkar! Ragnheiður Stephensen Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Helvítis fokking fokk!! Er ekki nóg komið? Maríanna H. Helgadóttir Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Þegar Skagamenn glöddu lítið hjarta María Rut Kristinsdóttir Skoðun Flokkur fólksins ræðst gegn hagsmunum eldra fólks og komandi kynslóða Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Íslenski fasteignamarkaðurinn: spilavíti þar sem húsið vinnur alltaf Ingvar Þóroddsson Skoðun
Hvað er til bragðs að taka, þegar ríkisstjórn lands leggur efnahag fólks og fyrirtækja í rúst? Þessi spurning brennur á sárþjáðri alþýðu í Simbabve og Búrmu. Þessi tvö lönd eiga það sammerkt, að ríkisstjórnir þeirra, eða öllu heldur einræðisherrarnir Róbert Múgabe og Than Shwe, hafa leyft sér að stöðva matvælasendingar Sameinuðu þjóðanna handa sveltandi fólki með þeim rökum, að ekki sé hægt að líða erlend afskipti af innanlandsmálum. Þeir líta á neyðarhjálpina sem árás á fullveldi landanna. Ástand beggja landa er hörmulegt. Blöðin í Suður-Afríku sögðu nýlega frá kennslukonu í Simbabve með 60 milljarða dollara í mánaðarlaun. Launin duga fyrir tólf tómötum. Það myndi kosta hana 40 milljarða dollara á dag að taka rútu í skólann. Hún gengur marga klukkutíma á dag. Mörgum sýnist, að ríku löndin haldi áfram að þjösnast á þróunarlöndunum. Nýlenduveldin komu að ýmsu leyti illa fram við nýlendur sínar í Afríku og Asíu, stundum mjög illa. Margir líta svo á, að yfirgangurinn haldi áfram. Innrásin í Írak 2003 ýtti undir þessa skoðun. Jafnvel Alan Greenspan, þá seðlabankastjóri Bandaríkjanna, staðhæfir í sjálfsævisögu sinni, að Bandaríkjamenn hafi ráðizt inn í Írak til að tryggja yfirráð sín yfir olíulindum Íraks. Stjórnarskrá Íraks frá 2005 skilgreinir þó olíuna sem þjóðareign Íraka. Múgabe og Shwe gera út á þá söguskoðun, að iðnríkin ógni þróunarlöndunum og ásælist auðlindir þeirra, og benda á Írak máli sínu til stuðnings.Hvað er hægt að gera?Hvað er hægt að gera við lönd eins og Simbabve og Búrmu? Vilji kjósenda hefur verið virtur að vettugi í báðum löndum. Ekki verður séð, að hægt sé að koma harðstjórunum tveim frá völdum án hernaðaríhlutunar. Ein leiðin er að ráðast inn, ryðja einræðisherrunum úr vegi með valdi, afhenda réttkjörnum stjórnarandstæðingum landsstjórnarvaldið og hverfa síðan á braut með innrásarherinn. Þannig fór til dæmis Tansaníuher að því að leysa Úgöndu undan ógnarstjórn Ídís Amín á sínum tíma, þótt ekki tæki miklu betra við fyrr en síðar.Í Búrmu og Simbabve leikur þó enginn vafi á, hverjir eru réttkjörnir leiðtogar landanna. Aung San Suu Kyi, síðar handhafi friðarverðlauna Nóbels, leiddi stjórnarandstöðuna til sigurs í þingkosningum í Búrmu 1990, en henni hefur æ síðan verið haldið í stofufangelsi með stuttum hléum. Hún er réttkjörinn leiðtogi lands síns. Verklýðsforinginn Morgan Tsvangíræ sigraði Múgabe í fyrri umferð forsetakosninganna í Simbabve um daginn þrátt fyrir kosningasvik af hálfu Múgabes, en Tsvangíræ neyddist til að draga sig í hlé í síðari umferðinni vegna ofbeldisverka af völdum Múgabes og manna hans. Múgabe segir, að guð einn geti komið honum frá völdum.Tsvangíræ er rétt kjörinn leiðtogi Simbabve. Það stæði við eðlilegar aðstæður og í ljósi sögunnar upp á Breta að ráðast ásamt til dæmis herjum Indlands og Suður-Afríku inn í Búrmu og Simbabve og skipta um ríkisstjórnir, en Bretar eru bundnir í Írak og Afganistan og treysta sér ekki heldur eins og sakir standa til hernaðar í öðrum heimshlutum.Brezki hagfræðingurinn Paul Collier, prófessor í Oxford, stakk upp á því í Washington Post um daginn, að Evrópusambandið gæti liðkað til með því að gefa innlendum herforingjum grænt ljós á uppreisn án beinnar íhlutunar, en kannski myndu þeir þá neyta lags og hrifsa völdin til sín frekar en að afhenda þau réttkjörnum leiðtogum. Staðan er þröng. Stundum er ekki hægt að tryggja framfarir og frið nema með valdi.Opin lönd og lokuðLöndum heimsins er hægt að skipta í tvo flokka: opin lönd og lokuð. Opnu löndin deila fullveldi sínu fúslega hvert með öðru. Þau skilja, að fullveldi er sameign líkt og lífið sjálft og gefur mest af sér, sé því deilt með öðrum. Lokuðu löndin heimta á hinn bóginn fortakslaust fullveldi. Þar eru löggjafarsamkundan, fjölmiðlar og dómstólar á bandi stjórnarherranna.Þýzkaland er í efnahagslegu tilliti mörg hundruð sinnum öflugra en Simbabve. Hvort landið skyldi heimta fullt og óskorað sjálfstæði í peningamálum, ríkisfjármálum, viðskiptum, sjálfstæða þjóðmynt og dómstóla, sem bjóða ekki upp á neinn rétt til áfrýjunar á erlendum vettvangi? Svarið er Simbabve. Þjóðverjar kjósa heldur að deila sjálfstæði sínu í peningamálum, ríkisfjármálum, viðskiptamálum og dómsmálum með öðrum þjóðum á vettvangi Evrópusambandsins. Robert Múgabe og Than Shwe hafa miklu meiri völd í Simbabve og Búrmu en Angela Merkel kanslari hefur í Þýzkalandi. Opin lönd lyfta lífskjörum og réttindum almennings, lokuð lönd skerða lífskjör og mannréttindi.