Lífið

Plastsvanur fékk sér kríu

Forsíða Morgunblaðsins í dag.
Forsíða Morgunblaðsins í dag.

Morgunblaðið gerði þá hvimleiðu villu í blaðinu í dag að birta á forsíðu sinni mynd af plastsvani sem blaðið hélt að væri lifandi álft en á plastkollinum hvíldi kría. Þótti stórmerkilegt að svo skemmtilegt athæfi í náttúrunni næðist á filmu en myndina tók Guðbjörn Magnússon við tjörn í Ólafsvík. Innan í blaðinu mátti svo finna fleiri myndir frá „náttúruundrinu" og frekari umfjöllun. Sagði þar meðal annars: „Guðbjörn segist telja að álftin sé geldfugl og því „opnari" fyrir uppákomum."

Fall er vonandi fararheill því um var að ræða fyrstu forsíðu Ólafs Þ. Stephensen sem formlega tók við ritstjórnarstólnum af Styrmi Gunnarssyni í gær með pompi og prakt.

Ástæðan fyrir veru plastsvananna í tjörninni er sú að einn íbúi Ólafsvíkur, Ríkarð Magnússon, kom plastsvönunum fyrir í tjörninni í fyrrasumar ásamt nokkrum stokköndum. Ríkarð segir fuglana hafa vakið skemmtileg viðbrögð og hann sjái oft ferðamenn stoppa við tjörnina til að taka myndir. Ríkarð var brugðið í morgun við að sjá plastsvaninn á forsíðu Morgunblaðsins en hafði þó gaman af misskilningnum.

Vísir hafði einnig samband við bæjarskrifstofu Snæfellsbæjar og þar hafði einhver á orði að „svona færi fyrir þeim sem ekki hefðu komið upp fyrir Elliðaárnar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.