Handbolti

Ísland steinlá í Skopje

Guðjón Valur skoraði 9 mörk í kvöld
Guðjón Valur skoraði 9 mörk í kvöld

Íslenska landsliðið í handbolta tapaði með átta marka mun fyrir Makedóníu 34-26 ytra í fyrri leik liðanna í undankeppni HM í kvöld. Íslenska liðið var langt frá sínu besta í kvöld.

Leikurinn var í járnum framan af fyrri hálfleik en í stöðunni 8-8 dró í sundur með liðunum. Makedónar höfðu yfir í hálfleik 18-13 og var sigri þeirra aldrei ógnað eftir það.

Sóknarleikur íslenska liðsins var skelfilegur í síðari hálfleik og ef ekki hefði verið fyrir ágæta markvörslu Birkis Ívars Guðmundssonar í markinu hefðu möguleikar íslenska liðsins fyrir síðari leikinn líklega verið litlir sem engir.

Markvörður makedónska liðsins gerði íslensku strákunum lífið einstaklega leitt í dag og varði í kring um 25 skot - nokkur þeirra úr dauðafærum. Þá nýttu strákarnir dauðafærin illa og áttu nokkur skot í markstangirnar.

Skyttur makedónska liðsins áttu huggulegan dag og skoruðu hvert markið á fætur öðru utan af velli.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu og skoraði 9 mörk, flest þeirra í fyrri hálfleik. Ólafur Stefánsson skoraði 6 mörk og þeir Snorri Steinn Guðjónsson og Vignir Svavarsson 3 hvor.

Róbert Gunnarsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Sigfús Sigurðsson, Arnór Atlason og Alexander Petersson skoruðu eitt mark hver.

Af þessum úrslitum má dæma að íslenska liðsins bíður gríðarlega erfitt verkefni í síðari leik liðanna hér heima í næstu viku, en þar verða strákarnir að vinna með 9 mörkum til að komast á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×