Viðskipti innlent

Al-Thani lítur á fjárfestingu sína í Kaupþingi sem glatað fé

Sheik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani lítur á 25,5 milljarða kr. fjárfestingu sína í Kaupþingi sem glatað fé. Að sögn Telmu Halldórsdóttur talsmanns Q Iceland Finance mun Al-Thani hafa greitt fyrir 5% eignarhlut sinn í Kaupþingi með reiðufé og mjög tryggum veðum í eignum sínum erlendis.

"Ég reikna samt með að hann sé ekki á flæðiskeri staddur þrátt fyrir þetta tap sitt á Kaupþingi," segir Telma.

Eins og fram kom í fréttum á sínum tíma áformaði Al-Thani einnig að fjárfesta fyrir töluverðar upphæðir í Alfesca á svipuðum tíma og hann keypti hlutinn í Kaupþingi. Ætlaði hann að nota fjárfestingarfélag sitt Q Iceland Finance til þessa.

Þau áform voru snarlega slegin út af borðinu þegar Kaupþing fór í þrot. Og frekari áform hans um fjárfestingar á Íslandi heyrðu þá einnig sögunni til.

Al-Thani tilheyrir konungsfjölskyldunni í Qatar en fjölskyldan hefur stjórnað þessu auðuga Arabaríki frá því á nítjándu öld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×